Héraðsdýralæknir bíður eftir leiðbeiningum frá Umhverfisstofnun um hvernig skuli farga hátt í þrjú þúsund kindum og lömbum vegna riðu sem greinst hefur á Norðurlandi vestra.

Þrátt fyrir reglugerð um að brenna eigi allt riðusýkt fé er einungis ein brennslustöð til á landinu en hún hefur ekki afkastagetu til að taka á móti svona miklu magni.

„Við erum að bíða eftir svörum frá Umhverfisstofnun hvernig þau vilja haga förgun þessara hræja,“ segir Jón Kolbeinn Jónsson, héraðsdýralæknir á Norðurlandi vestra, í samtali við Fréttablaðið.

Útbreiðsla riðu hefur nú verið staðfest á bæjunum Grænumýri og Syðri-Hofdölum í Blönduhlíð, og Hofi í Hjaltadal og þurfa bændur, í samvinnu við Matvælastofnun og Umhverfisstofnun, að lóga allt að þrjú þúsund fjár.

„Áður höfum við komið með lekahelda gáma á búin og skotið og blóðgað ofan í gámunum þannig að smitefni sé haldið í lágmarki. Hingað til höfum við farið í Kölku til að brenna dýrahræin en þau sjá sér ekki fært að taka við svona miklu magni,“ segir Jón Kolbeinn.

Engin almennileg úrræði

Engin almennileg úrræði eru til á Íslandi, sérstaklega fyrir svona mikið magn.

„Við höfum ekki hafnað því að brenna þessu. Við erum tilbúnir til að gera það en það er svo takmörkuð afkastageta á Kölku,“ segir Ingþór Karlsson, rekstrarstjóri brennslu á Kölku í samtali við Fréttablaðið.

Aukið álag er á starfsfólki Kölku en stöðin tekur einnig að sér að eyða sjúkrahússorpi. Vegna kórónaveirufaraldurs hefur sorp frá sjúkrahúsum aukist mikið.

„Við getum ekki tekið mikið magn í einu því við þurfum að blanda þetta með öðru rusli. Þetta er ekki efni sem brennur og þetta myndi taka langan tíma að brenna þessum þúsundum hræja,“ segir Ingþór.

„Það er engin lausn hér á landi að taka svona hratt við svona miklu.“

Vakta Skaga- og Húnahólf náið

Héraðsdýralæknir Norðvesturumdæmis vaktar Skaga- og Húnahólf náið eftir að riða greindist í Tröllaskagahólfi.

Riða hefur komið upp á tuttugu búum í Skaga- og Húnahólfi á undanförnum tveimur áratugum, nú síðast á bænum Grófargili í nágrenni Varmahlíðar í Skagafirði, en það var í febrúar á þessu ári.