Formaður Geðhjálpar segir niðurstöður nýrrar OPCAT-skýrslu Umboðsmanns Alþingis um bráðageðdeild 32C ekki koma á óvart en að þó sé um að ræða mikilvægt púsl í átt til umbóta í málaflokknum.

Fram kemur í skýrslu umboðsmanns að skoða þurfi réttarstöðu nauðungarvistaðra og inngrip í réttindi sjúklinga á geðdeildum. Í skýrslunni er bent á að taka þurfi skilyrði lögræðislaga til skoðunar og meta hvort það þurfi að skýra betur í lögum að nauðungarvistun á grundvelli andlegrar vanheilsu sé ekki heimil nema geðsjúkdómur kalli á slíka frelsissviptingu og önnur vægari úrræði komi ekki til greina.

Kemur ekki á óvart

„Þetta kemur svo sem ekki á óvart en er partur af stærra ferli, umbótaferli, sem vonandi er að fara í gang. Þessi ríkisstjórn ætlar sér að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra og sá samningur mun jafnvel ýta mannréttindum fatlaðra framan en réttindum ófatlaðra og hefur þannig líka áhrif fyrir ófatlaða. Það á eftir að lögfesta samninginn en hún mun hafa í för með sér breytingar á ansi mörgum lögum,“ segir Héðinn Unnsteinsson, formaður Geðhjálpar, um nýja skýrslu Umboðsmanns Alþingis um bráðageðdeild 32C á geðdeild Landspítalans við Hringbraut.

Meðal þeirra laga sem munu breytast við lögfestingu eru sem dæmi lögræðislög, hegningarlög, lög um réttindi sjúklinga og réttindi fatlaðra.

„Þetta er hluti af miklu stærri mynd í mínum huga,“ segir Héðinn og að yfirvofandi séu miklar breytingar í geðheilbrigðisþjónustu. Hann segir að hann sé, sem dæmi, nýkominn úr heimsókn í Noregi þar sem hann og fleiri heimsóttu lyfjalausar deildir.

„Þessi skýrsla er eitt púsl í stærri mynd en mjög mikilvægt púsl. Það er mjög gott að fá þessa skýrslu frá þeim.“

Eitt er lagaumhverfið sem umvefur þau sem veikjast alvarlega með þessum hætti en svo er í skýrslu umboðsmanns einnig bent á aðbúnað og aðstæður húsakosts geðdeildarinnar sem Héðinn segir að sé alveg úr sér genginn.

„Þessu verður kerfið að kippa í lag strax“

„Geðgreiningarnar eru gjörólíkar líkamlegum greiningum þar sem það er til staðar röntgenmynd, þvag eða blóðprufa eða einhver hlutlæg leið til að sýna fram á hvað er að. En með geðgreiningar þá ertu með bara með knippi af einkennum. Þunglyndi eru fimm einkenni á tveimur mánuðum. Af hverju eru það ekki tíu einkenni á þremur? Þetta er svo huglægt og það er svo erfitt að eiga við,“ segir Héðinn og bætir við: að skýrslan sé fín lóð á vogarskálarnar áfram.

„En kerfið er seint til viðbragða og ég vona að þetta þokist eitthvað áfram núna. Sérstaklega með þetta sem bent er á með að fara út, tala í síma eða reykja. Það er enginn lagagrundvöllur fyrir þessu og þessu verður kerfið að kippa í lag strax. Tæknilega séð er ekki verið að brjóta lög, en það er enginn lagarammi utan um þetta og það er það sem að umboðsmaður er að benda á. Þessu er hægt að kippa í lið strax,“ segir Héðinn.

Í raun verið að brjóta mannréttindi daglega

Í viðbrögðum stjórnar samtakanna til Fréttablaðsins um skýrsluna segir að þar komi fram alvarlegar ábendingar er varða mannréttindi og mannhelgi notenda geðheilbrigðisþjónustu Landspítalans.

„Það segir ákveðna sögu um almannaþjónustu okkar að OPCAT eftirlit og ábendingar umboðsmanns, á þremur lokuðum deildum á Kleppi árið 2018 (skýrsla kom út haustið 2019), virðist litlu eða engu hafa skilað þegar kemur að bættum aðbúnaði og mannréttindum notenda. Margar af þeim ábendingum sem þar komu fram eru endurteknar í skýrslu umboðsmanns nú,“ er bent á.

Þar segir einnig að í raun sé verið að brjóta mannréttindi notenda geðþjónustunnar á hverjum degi á Íslandi því að lagaheimild skorti til að beita ýmsum þvingunum, inngripum og valdbeitingu.

Sem dæmi segir umboðsmaður Alþingis í skýrslu sinni: „Til grundvallar á skerðingum á friðhelgi einkalífs þarf m.a. að liggja lagaheimild og krafa um nauðsyn. Líkt og áður hefur verið rakið í skýrslu umboðsmanns vegna heimsóknar á þrjár lokaðar geðdeildir á Kleppi liggja ekki fyrir skýrar lagaheimildir samkvæmt íslenskum réttir til að beita sjúklinga á geðheilbrigðisstofnunum ýmiss konar inngripum, þvingunum og valdbeitingu.“

Lítil hjálp í því að banna fólki að fara út eða að reykja

Þá dregur stjórn samtakanna það í efa að hluti meðferðar við geðrænum áskorunum felist í því að banna fólki að fara út, að banna fólki að tala í síma, banna fólki að reykja og ítrekar stjórnin tilboð þess efnis að leggja stjórnvöldum lið í að breyta þessu sem allra fyrst.

Stjórn Geðhjálpar gerir einnig athugasemdir við það að eftirlit með starfsemi á geðdeildum sé nær ekkert en í skýrslu umboðsmanns er þeim tilmælum beint til Landspítala um að endurskoða núverandi reglur og verklag á deildinni þannig að sjúklingar, og eftir atvikum aðstandendur þeirra, fáu upplýsingar um kvörtunar- og kæruleiðir innan og utan spítalans á auðskiljanlegu formi.

„Þegar notendur vilja kæra ákvarðanir eru ferlar óljósir og litla hjálp að fá. Landlæknisembættið fer með eftirlitshlutverkið en embættið hefur takmarkaða getu til þess að sinna því svo vel sé. Kvartanir virðast einhverra hluta vegna daga þar uppi og þekkir Geðhjálp til of margra erinda sem enn hefur ekki verið svarað þrátt fyrir að hafa verið send þangað inn fyrir mörgum mánuðum og jafnvel árum,“ segir stjórnin en gerir einnig athugasemd við það að hvergi sé að finna í kerfinu tölfræði yfir nauðung eða þvingun en umboðsmaður Alþingis bendir á í skýrslunni að slíkar upplýsingar séu forsenda þess að frelsissviptir getir látið reyna á réttindi sín.

„Þetta er ekki boðlegt enda er ein forsenda þess að draga úr slíkum mannréttindabrotum að hafa upplýsingar um þau og tíðni þeirra. Þegar kemur að úrvinnslu áfalla með notendum, sem beittir eru nauðung og þvingun, þá er hún ekki fyrir hendi. Það getur ekki talist til eðlilegra meðferðahátta að notendur þjónustunnar þurfi að leita sér áfallameðferðar á sinn eigin kostnað eftir dvöl á geðdeild,“ segir stjórnin.

„Geðdeildir Landspítalans eru komnar til ára sinna og hefur ítrekað verið bent á nauðsyn þess að byggja nýtt húsnæði utan um nýskapandi og mannúðlegri hugmyndafræði sem tekur annars vegar mið að stóraukinni þjónustu við fólk með geðrænar áskoranir í samfélaginu og hins vegar að batahugmyndafræði hvar mannréttindi eru sett á oddinn,“ segir í viðbrögðum stjórnar sem er hægt að lesa í heild sinni hér.