Lög­reglu­stjóri í Vestmannaeyjum segir engin lög­reglunni þar ekki hafa borist neinar til­kynningar um kyn­ferðis­brota­mál. Tals­verður erill var hjá lög­reglunni í Vest­manna­eyjum í gær­kvöld og nótt. Sjö líkams­á­rásar­mál voru skráð hjá lög­reglu eftir nóttina.

Það sem af er þjóð­há­tíð hefur lög­reglu ekki borist neinar til­kynningar um kyn­ferðis­brota­mál, að sögn Gríms Her­geirs­sonar, lög­reglu­stjóra í Vest­manna­eyjum.

„Það var húkkara­ballið á fimmtu­dags­kvöldið, síðan föstu­dags­kvöldið og nóttin, þetta var allt ró­legt og fór mjög vel fram,“ segir Grímur og bætir við: „Í nótt var þó að­eins meiri erill en engin al­var­leg líkams­á­rás eða neitt slíkt.“

„Í nótt var þetta að­eins meira eins og við er að búast þegar svona gríðar­legur fjöldi kemur saman og er að skemmta sér,“ segir hann.

Að­spurður hvort þessi þjóð­há­tíð sé ró­legri en þær sem áður hafa verið haldnar segir Grímur: „Það er erfitt að bera þetta saman en heilt yfir það sem af er þjóð­há­tíð þá finnst okkur vera betri bragur á þessu en hefur oft verið.“

„Þetta er svo sem ekki búið en er búið að fara á­gæt­lega vel fram,“ segir hann.

Sjö vistaðir í fanga­geymslu

Í til­kynningu sem birtist á vef lög­reglu segir að sjö hafi verið vistaðir í fanga­geymslu, þar af voru fjórir vegna ölvunar­á­stands og þrír í tengslum við rann­sókn líkams­á­rásar­mála.

Þá voru sjö minni­háttar fíkni­efna­mál skráð hjá lög­reglunni í Vest­manna­eyjum síðasta sólar­hringinn.

„Nú í morguns­árið er ró­legt yfir bænum og sólin að gægjast í gegnum skýin,“ segir í til­kynningunni. Lög­reglan beinir því til öku­manna að gæta vel að því að aka ekki af stað fyrr en tryggt er að allt á­fengi sé farið úr blóðinu.

„Lög­reglan í Vest­manna­eyjum verður með öflugt eftir­lit með á­standi öku­manna á götum bæjarins í dag sem og aðra daga,“ segir að lokum í til­kynningunni.