Enginn greindist með kórónaveiruna innanlands í gær en þetta er í fyrsta sinn sem ekkert smit greinist innanlands frá 30. maí síðastliðnum. Fyrir 30. maí hafði síðast ekkert smit greinst innanlands þann 23. maí. Tiltölulega fá sýni voru tekin innanlands í gær, eða rétt rúmlega þúsund í heildina.

Á landamærunum voru aftur á móti tekin verulega mörg sýni, eða tæplega 2.600, og greindust þar níu einstaklingar. Af þeim voru sjö með mótefni en hinir tveir greindust með virkt smit við seinni skimun.

Fjórir einstaklingar greindust með veiruna um helgina, þrír á föstudag og einn á laugardag, og voru þar allir í sóttkví við greiningu. Á landamærunum greindust síðan tíu manns, sjö á föstudag og þrír á laugardag. Átta þeirra reyndust vera með mótefni.

Fyrir helgi voru 47 í einangrun með virkt smit og 199 í sóttkví en í dag eru 50 í einangrun og 251 í sóttkví.

Um 27 þúsund bólusettir í vikunni

Í vikunni mun bólusetning árganga hefjast en um er að ræða einstaklinga sem eru ekki í forgangshópi á höfuðborgarsvæðinu. Síðastliðinn föstudag voru árgangar dregnir út um hvenær þeir myndu fá bóluefni og skiptist hver árgangur í konu og karla.

Nú þegar hafa allir fæddir 1975 og fyrr fengið boð í bólusetningu auk þeirra sex hópa sem fengu skyndiboð í síðustu viku, það eru karlar fæddir 1978, 1987 og 1999 og konur fæddar 1982, 1983 og 1996.

Í heildina hafa 101.713 einstaklingar verið fullbólusettir hér á landi og er bólusetning hafin hjá 86.496 einstaklingum til viðbótar.

Nú hafa átta hópar, karlar fæddir 1979, 1993, 1992 og 1983 og konur fæddar 1984, 1978, 1998 og 1986, fengið boð í bólusetningu með bóluefni Pfizer á morgun. Tíu hópar til viðbótar verða bólusettir í vikunni, karlar fæddir 1984, 2003, 1977, 1997 og 1985, og konur fæddar 2000, 1981, 1980, 2004 og 1988.

Í vikunni verða um 27 þúsund einstaklingar bólusettir hér á landi. Næstu tvær vikur verða síðan næstu hópar í röðinni boðaðir en röð árganga má finna á vef Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.