Enginn greindist með veiruna innanlands í gær en þetta er í fyrsta sinn sem engin smit greinast innanlands frá 18. mars síðastliðnum. Rúmlega 900 sýni voru tekin innanlands í gær.

Fimm manns greindust aftur á móti á landamærunum og fjölgar þeim milli daga. Fjórir greindust þar með virkt smit við fyrri skimun en einn var með mótefni. Rúmlega 500 sýni voru tekin á landamærunum.

Alls eru nú 80 í einangrun með virkt smit en þeim fækkar um þrjá á milli daga. Þá eru 165 í sóttkví og 1072 í skimunarsóttkví en þeim fækkar einnig milli daga.

Tveir eru á sjúkrahúsi og fram kom á upplýsingafundi almannavarna í dag að annar þeirra er á gjörgæslu. Um er að ræða einstakling á sjötugsaldri sem var fluttur með flugi á Landspítalann.

Upplýsingafundur í dag

Ný reglugerð um samkomutakmarkanir innanlands tók gildi á miðnætti og mega nú 20 manns koma saman. Þá hafa sundlaugar og líkamsræktarstöðvar opnað á ný og eru áhorfendur leyfðir á íþróttaviðburðum og í sviðslistum.

Boðað hefur verið til upplýsingafundar í dag þar sem farið verður yfir stöðu mála þegar kemur að COVID-19 hér á landi. Fundurinn hefst klukkan 11 og á honum verða Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, Alma Möller landlæknir, og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn.

Fréttin hefur verið uppfærð.