Héraðsdómur Reykjavíkur hefur vísað frá báðum köflum er snúa að hryðjuverkum í hryðjuverkamálinu svokallaða en úrkskurðað var í málinu í dag.

„Við erum mjög ánægð með þetta og þetta er í samræmi við okkar væntingar,“ segir Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður Sindra Snæ Birgissonar, eins ákærða í málinu.

Sveinn Snær og Ísidór Nathansson voru ákærðir fyrir skipulagningu hryðjuverka, vopnalagabrot og annar þeirra einnig fyrir fíkniefnalagabrot. Nú hefur héraðsdómur vísað frá ákærum mannanna sem snúa að hryðjuverkum og skipulagningu þeirra.

Sveinn Andri segir héraðssaksóknara nú hafa þrjá sólarhringa til að kæra úrskurð héraðsdóms kjósi þeir að gera svo. „Hann tók sér frestinn þannig ég veit ekki hvað þeir gera.“

Aðspurður hvort hann eigi von á að ákæruvaldið kæri úrskurðinn segir Sveinn Andri það líklegt miðað við það sem á undan hafi gengið. „Svo hafa þeir auðvitað þann kost líka að gefa út endurbætta ákæru. Þriðji möguleikinn er síðan að láta þetta bara gott heita og halda sig við vopnalagabrotin.“

Við þingfestingu málsins í héraði vakti Sveinn Andri athygli dómara á því að gerð væri sérstök krafa um frávísun, í ákæru væru atriði sem ef til vill vörðuðu það að málinu yrði vísað frá.

„Hann tók okkur á orðinu og ákvað að eigin ákvörðun að hafa málflutning um formhliðina og þetta er niðurstaðan,“ segir Sveinn Andri glaður með niðurstöðuna í dag. Sveinn Andri segir að í ákæru málsins hafi vantað í hvaða háttsemi ætluð hryðjuverk áttu að felast í. Það hafi vantað efnislýsinguna. „Þannig það var niðurstaða dómarans að ákæran væri allt of opin og óljós.“

Aðspurður um framhaldið segir Sveinn Andri boltann liggja hjá ákæruvaldinu, hvort þeir ákveði að kæra málið til Landsréttar eða hvað.