Vel hefur verið fylgst með hlíðinni ofan Seyðis­fjarðar í dag vegna mikillar úr­komu sem hófst í gær­kvöldi og stendur enn.

Þetta kemur fram í til­kynningu frá Lög­reglunni á Austur­landi.

„Sam­kvæmt mælum Veður­stofu og mati á vett­vangi hefur engin hreyfing á hlíðinni verið greind. Hún er því stöðug þrátt fyrir rigningar. Á­fram verður fylgst með og á­kvörðun tekin í fyrra­málið um mögu­lega af­léttingu rýmingar frá því á föstu­dags­kvöld,“ segir í skeyti lög­reglu.

Appel­sínu­gul veður­við­vörun hefur verið í gildi á Aust­fjörðum síðan klukkan 23 í gær­kvöldi og á hún að gilda til klukkan 22 í kvöld þegar draga fer úr úr­komu­ákefðinni. Á þessum tæpu 23 tímum sem við­vörunin gildir var spáð um 45 milli­metra upp­safnaðri úr­komu á Seyðis­firði. Á­fram er spáð vætu á morgun en í minna magni en í dag og í nótt.