Flugeldagámar Landsbjargar hafi komið síðar til landsins þetta árið en áður en landsmenn þurfa ekki að óttast flugeldalaus áramót þrátt fyrir það. Enn er beðið síðustu gámanna en Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir þá væntanlega á allra næstu dögum.
Landsbjörg kaupir alla sína flugelda frá Kína og miklar tafir á vöruflutningum í heiminum haft áhrif á flutning þeirra.
„Staðan er að okkar mati nokkuð góð miðað við aðstæðurnar í heiminum. Við erum búin að vinna að því ötullega allt undanfarið ár að láta þetta ganga upp hjá okkur, þessa vertíð. Við eigum von á síðustu gámunum á allra næstu dögum. Hjá okkur er kapallinn að ganga upp. Vissulega hefur þetta verið erfiðara en oft áður, öðruvísi áskoranir eins og við höfum heyrt víða og allir nánast í heiminum eru að lenda í; það er skortur á gámum, tafir á flutningum og eitthvað um verðhækkanir. Við erum eiginlega komin með niðurstöðu hjá okkur, verðhækkanir á flugeldum hjá okkur milli ára nema ekki nema um fimm prósentum. Það er að okkar mati nokkuð vel sloppið. Að okkar mati er kapallinn að ganga upp,“ segir Davíð.
„Þetta er klárlega seinna á ferðinni en venjulega. Það skýrist náttúrulega af ástandinu í heiminum en þetta er samt að ganga upp, töluvert betur en svörtustu sviðsmyndirnar sem við gátum dregið upp. Við erum líka mjög ánægð með það. Flutningskostnaður í heiminum hefur hækkað á árinu út af þessum heimsfaraldursafleiðingum en við sjáum samt það að flugeldar hjá okkur eru ekki að hækka meira en um fimm prósent. Við lítum björtum augum á áramótin fram undan og það er ekkert að okkar mati sem ætti að stoppa okkur í að halda góð áramót saman öll.“
