„Það hefur hægt aðeins á gúrkuframleiðslunni vegna þess að bændur voru að skipta út plöntum en það þarf alltaf að gera reglulega,“ útskýrir Kristín. „Á sama tíma gerist það að skólarnir eru að byrja og mötuneytin að opna, atvinnulífið er allt að fara af stað og meira er að gera á veitingastöðum svo það er gríðarleg eftirspurn,“ bætir hún við.

Gúrkur hafa löngum verið vinsælar hjá Íslendingum, þær innihalda mikið magn vatns, eða 96 grömm í hundrað grömmum, auk þess innihalda þær A-, B- og C-vítamín, kalk og járn. Þær eru ræktaðar allt árið um kring og er plantað út allt að fimm sinnum á ári en í hefðbundinni ræktun er þeim plantað tvisvar á ári, í febrúar og maí eða júní. Ræktunar tími gúrku er nokkrar vikur.

„Annað sem bændur hafa verið að upplifa samhliða þessu er að erfitt reynist að fá fólk til starfa. Á þessum háannatíma hefur viðbótafólk oft komið inn en það er erfitt að fá það inn núna,“ segir Kristín.

Hún segir landsmenn þó ekki þurfa að bíða lengi eftir gúrkunum, von sé á þeim í verslanir á næstu dögum.

„Það hefur verið góð tíð í blómkáli og það er nóg til af rófum,“ segir Kristín en bendir á að veðurfar hafi haft áhrif á grænmetisframleiðsluna í ár, kaldir vordagar hafi seinkað komu útiræktaðs grænmetis í verslanir.

Íslenskt útiræktað grænmeti var um það bil tveimur vikum seinna á ferðinni í ár en vanalega. Maímánuður var kaldur og það rigndi lítið. Aðalútiræktunarsvæði fyrir íslenskt grænmeti er Flúðasvæðið á Suðurlandi og þar var sérlega kalt í vor.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands var maímánuður hér á landi þurr um allt land og óvenju lítið rigndi fyrstu þrjár vikur mánaðarins. Meðalhiti í Árnesi í maí síðastliðnum var 4,8 stig sem er 1,7 stigum undir meðaltali áranna 1991 til 2020.

„En þetta er að komast í jafnvægi núna,“ segir Kristín.