María Lilja Þrastardóttir, fjölmiðlakona og húsmóðir í Lúndúnum, segir sund Marglyttanna yfir Ermarsundið dæmi um dygðaskreytingu (e. virtue signalling) og segir plastnotkun sundkvennanna grátbroslega.

„Ef afrek telst að vinna verk af dugnaði og skila árangri þá telst það líklega til afreka að synda Ermarsundið með saumaklúbbnum sínum,“ segir María í samtali við Fréttablaðið.

„Það er samt engin hetjudáð og sannarlega engin fórn fyrir forréttindakonur að henda sér í sjóinn.“

Mark­mið ferðarinnar hjá Marglyttunum var að vekja at­hygli á plast­mengun í sjónum.

„Tilgangur þessarar ferðar var tæplega að vekja athygli á plastmengun, að minnsta kosti svona í ljósi þess hve mikið plastbruðl er á þeim sjálfum,“ segir María en hún birti myndir af Marglyttunum í færslu á Twitter, sem sýna sundkonurnar í plast inniskóm, með plastpoka um borð í bátnum.

„Þetta er áhugamál vinkvennanna, ekkert að því, þær eru að safna peningum í leiðinni. Umhverfisverndin er algjör aukaafurð í gjörningnum og ætti að tala um sem slíka. Marglyttur eru fyrst og fremst að skemmta sér en leyfa svo umhverfisverndarsamtökum að hirða upp eftir sig brauðmolana og annað sem til fellur af allsnægtarborðinu.

Alveg fullkomið dæmi um virtue signaling kapítalísta yfirstéttarinnar. „Do as I say, not as I do““

Ermarsundið, sem stundum er kallað „Mount Everest sjósundfólks“ er 34 km leið á milli borganna Dover í Englandi og Cap Gris í Frakklandi.

Boð­sund Marglyttanna hefur verið í undir­búningi síðast­liðin tvö ár og hefur hópurinn æft nánast dag­lega til að takast á við þrek­raunina.

Sundkonurnar lögðu af stað yfir Ermarsundið frá Dover klukkan 6 í gærmorgun og kom hópurinn til hafnar í Cap Gris Nex í Frakk­landi í gærkvöld. Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé kom í mark klukkan 22:53 í gærkvöld á staðartíma.