Engin tilfelli voru skráð af inflúensu á seinasta inflúensutímabili, veturinn 2020-2021, en síðustu fimm ár hafa að meðaltali 476 tilfelli verið skráð á hverju tímabili. Þetta kemur fram í nýjasta fréttabréfi sóttvarnalæknis.
Að því er sóttvarnalæknir segir skýrist þetta líklegast af ferðatakmörkunum og aðgerðum á landamærum. Þá hafi aldrei jafn margir verið bólusettir við inflúensu. Mun færri greindust með lekanda það sem af er ári, samanborið við seinustu þrjú ár, en engin breyting er á tilfellum klamýdíu og HIV.
Aðeins 29 einstaklingar greindust með lekanda frá janúar til maí á þessu ári, 21 karl og 20 með erlent ríkisfang. Á sama tíma á seinasta ári höfðu um 60 tilfelli greinst.
Uppsafnaður fjöldi klamýdíu í maí á þessu ári var um 700, svipað og árið á undan. Fjöldi tilfella af HIV helst einnig sambærilegur milli ára, en þar hafa tólf greinst það sem af er ári.