„Það eru nú engin dæmi um annað þegar kosið er á milli manna, þannig ég vinn bara áfram eins og ég lofaði landsfundargestum,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra spurður að því hvort ráðherrasæti hans sé öruggt og hvort komið hafi til tals að skipta honum út sem ráðherra í kjölfar landsfundar Sjálfstæðisflokksins um helgina.
Eins og frægt er orðið laut Guðlaugur í lægra haldi gegn sitjandi formanni Bjarna Benediktssyni og hlaut 40 prósent atkvæða gegn rúmum 60 prósentum Bjarna. Guðlaugur segir að vel hafi farið á með honum og Bjarna eftir fund.
„Ég held bara áfram að vinna að framgangi sjálfstæðisstefnunnar og geri svo sannarlega í mínu ráðuneyti og mun halda því áfram,“ segir Guðlaugur um eftirmála landsfundarins.
Bjarni Benediktsson sagði sjálfur í aðdraganda landsfundarins að sæti Guðlaugs myndi haldast óbreytt færi það svo að Guðlaugur lyti í lægra haldi gegn Bjarna. Áhöld hafa verið uppi um það hvort Bjarni myndi hugsanlega skipta Guðlaugi Þór út fyrir Guðrúnu Hafsteinsdóttur, oddvita flokksins í Suðurkjördæmi.
Stoltur af eigin árangri
„Við höfum náttúrulega bara hist á fundum og það hefur verið bara eins og áður,“ segir Guðlaugur Þór um samskipti sín við Bjarna í kjölfar fundarins.
Guðlaugur segir landsfundinn hafa sýnt styrk Sjálfstæðisflokksins. „Þetta sýndi styrk okkar Sjálfstæðismanna og var langstærsti landsfundurinn í sögu flokksins. Krafturinn fór ekki framhjá neinum,“ segir Guðlaugur.
„Ég er mjög stoltur af niðurstöðunni sem snýr að mér, bæði er ég stoltur og ánægður með mína stuðningsmenn og ég tala nú ekki um þann stuðning sem ég fékk á fundinum, því það hefur nú ekki áður verið kosning á milli formanns í ríkisstjórn og annars frambjóðanda,“ segir Guðlaugur og bætir við:
„Að fá yfir 40 prósent er eitthvað sem maður getur verið mjög stoltur og ánægður með.“
Hann segist ekki síður stoltur af því að sinn málflutningur hafi hlotið hljómgrunn í eyrum landsfundargesta.
„Hann fékk góðan hljómgrunn og mér finnst mun fleiri vera að taka undir hann núna og þetta var nauðsynleg umræða að taka og ég lít svo á að þessi landsfundur sé svona fyrsta skrefið í því að við styrkjum og eflum Sjálfstæðisflokkinn í að ná þeim markmiðum sem við höfum að sjá sjálfstæðisstefnuna í framkvæmd sem er mjög mikilvægt fyrir þjóðina.“