„Það eru nú engin dæmi um annað þegar kosið er á milli manna, þannig ég vinn bara á­fram eins og ég lofaði lands­fundar­gestum,“ segir Guð­laugur Þór Þórðar­son um­hverfis­ráð­herra spurður að því hvort ráðherrasæti hans sé öruggt og hvort komið hafi til tals að skipta honum út sem ráð­herra í kjöl­far lands­fundar Sjálf­stæðis­flokksins um helgina.

Eins og frægt er orðið laut Guð­laugur í lægra haldi gegn sitjandi for­manni Bjarna Bene­dikts­syni og hlaut 40 prósent at­kvæða gegn rúmum 60 prósentum Bjarna. Guð­laugur segir að vel hafi farið á með honum og Bjarna eftir fund.

„Ég held bara á­fram að vinna að fram­gangi sjálf­stæðis­stefnunnar og geri svo sannar­lega í mínu ráðu­neyti og mun halda því á­fram,“ segir Guð­laugur um eftir­mála lands­fundarins.

Bjarni Bene­dikts­son sagði sjálfur í að­draganda lands­fundarins að sæti Guð­laugs myndi haldast ó­breytt færi það svo að Guð­laugur lyti í lægra haldi gegn Bjarna. Á­höld hafa verið uppi um það hvort Bjarni myndi hugsan­lega skipta Guð­laugi Þór út fyrir Guð­rúnu Haf­steins­dóttur, odd­vita flokksins í Suður­kjör­dæmi.

Stoltur af eigin árangri

„Við höfum náttúru­lega bara hist á fundum og það hefur verið bara eins og áður,“ segir Guð­laugur Þór um sam­skipti sín við Bjarna í kjöl­far fundarins.

Guð­laugur segir lands­fundinn hafa sýnt styrk Sjálf­stæðis­flokksins. „Þetta sýndi styrk okkar Sjálf­stæðis­manna og var lang­stærsti lands­fundurinn í sögu flokksins. Krafturinn fór ekki fram­hjá neinum,“ segir Guð­laugur.

„Ég er mjög stoltur af niður­stöðunni sem snýr að mér, bæði er ég stoltur og á­nægður með mína stuðnings­menn og ég tala nú ekki um þann stuðning sem ég fékk á fundinum, því það hefur nú ekki áður verið kosning á milli formanns í ríkis­stjórn og annars fram­bjóðanda,“ segir Guð­laugur og bætir við:

„Að fá yfir 40 prósent er eitt­hvað sem maður getur verið mjög stoltur og á­nægður með.“

Hann segist ekki síður stoltur af því að sinn mál­flutningur hafi hlotið hljóm­grunn í eyrum lands­fundar­gesta.

„Hann fékk góðan hljóm­grunn og mér finnst mun fleiri vera að taka undir hann núna og þetta var nauð­syn­leg um­ræða að taka og ég lít svo á að þessi lands­fundur sé svona fyrsta skrefið í því að við styrkjum og eflum Sjálf­stæðis­flokkinn í að ná þeim mark­miðum sem við höfum að sjá sjálf­stæðis­stefnuna í fram­kvæmd sem er mjög mikil­vægt fyrir þjóðina.“