Útlendingastofnun segir engum börnum né fjölskyldum þeirra verða vísað til Grikklands. 37 börnum verður vísað annað. Þetta er meðal þess em fram kemur í tölfræðiupplýsingum sem stofnunin sendi frá sér nú síðdegis.
Í tilkynningu frá stofnuninni kemur fram að 197 manns séu nú á lista stofnunarinnar yfir fólk sem fengið hefur mál sitt endurupptekið hjá stofnuninni vegna langrar veru í landinu. Þar af hefur 102 einstaklingum verið synjað um vernd og bíða þess að vera fylgt til heimalands.
29 bíða endursendingar til annars Evrópuríkis á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og 51 bíður endursendingar til annars Evrópuríkis á grundvelli þess að njóta þar þegar alþjóðlegrar verndar, að því er segir í tilkynningunni. 15 einstaklingum á listanum hefur verið gert að yfirgefa landið eftir að hafa fundist hér í ólögmætri dvöl.
Þá segir þar að 44 einstaklingar verði sendir til Grikklands, í þeim hópi sem bíður endursendingar vegna verndar í öðru landi. „Af þeim sem bíða endursendingar vegna verndar í öðru landi eiga 44 einstaklingar að fara til Grikklands,“ segir orðrétt í tilkynningu frá stofnuninni.
„Tvær fjölskyldur með börn eru í þeim hópi en ljóst er að þeim verður ekki fylgt úr landi þar sem réttur til efnislegrar meðferðar stofnast á næstu dögum vegna langrar dvalar þeirra í landinu. Stoðdeild er því á þessari stundu ekki að undirbúa neinn flutning á börnum eða fjölskyldum þeirra til Grikklands.“
Verkbeiðnalisti yfirlit 27.5.2022.xlsx
Tilkynning Útlendingastofnunar í heild sinni:
Vegna fylgdar fólks frá Íslandi sem fengið hefur synjun við umsókn um alþjóðlega vernd og í kjölfarið gert að yfirgefa landið.
Undanfarin tvö ár hefur framkvæmd frávísana frá landinu verið háð miklum takmörkunum vegna sóttvarnarreglna á landamærum móttökuríkja. Grikkland hefur nýlega afnumið slíkar reglur en önnur lönd eins og til dæmis Ítalía eru enn með takmarkanir í gildi og stendur því ekki til að hefja undirbúning fylgda til Ítalíu eins og stendur. Ekki stendur heldur til að fylgja fólki sem hér dvelur til Ungverjalands nema í samráði við stjórnvöld þar í landi en Ungverjaland hefur opinberlega lýst yfir neyðarástandi í málefnum flóttamanna samkvæmt upplýsingum frá stoðdeild ríkislögreglustjóra.
Listi stoðdeildar með verkbeiðnum frá Útlendingstofnun hefur tekið þó nokkrum breytingum að undanförnu þar sem töluverður fjöldi fólks hefur fengið mál sitt endurupptekið hjá Útlendingastofnun vegna langrar veru í landinu. Heildarfjöldi á verkbeiðnalista miðað við núverandi stöðu er 197 manns. Þar af hefur 102 einstaklingum verið synjað um vernd við efnislega meðferð umsóknar og bíða þess að vera fylgt til heimalands. 29 bíða endursendingar til annars Evrópuríkis á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og 51 bíður endursendingar til annars Evrópuríkis á grundvelli þess að njóta þar þegar alþjóðlegrar verndar. 15 einstaklingum á listanum hefur verið gert að yfirgefa landið eftir að hafa fundist hér í ólögmætri dvöl.
Af þeim sem bíða endursendingar vegna verndar í öðru landi eiga 44 einstaklingar að fara til Grikklands. Tvær fjölskyldur með börn eru í þeim hópi en ljóst er að þeim verður ekki fylgt úr landi þar sem réttur til efnislegrar meðferðar stofnast á næstu dögum vegna langrar dvalar þeirra í landinu. Stoðdeild er því á þessari stundu ekki að undirbúa neinn flutning á börnum eða fjölskyldum þeirra til Grikklands.
Í viðhengi er að finna nánari tölfræðiupplýsingar, meðal annars um fjölda einstaklinga eftir ríkisfangi og móttökulandi sem og skiptingu milli barna og fullorðinna. Taka skal fram að vegna persónuverndarsjónarmiða miðar tölfræðin við niðurbrot á ríki með minnst fimm einstaklinga. Heildarfjöldi kemur fram.