Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur hafnað kröfu sjö íbúa og húseigenda í Kollafirði um að fresta gildistöku ákvörðunar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um að gefa út starfsleyfi fyrir rekstri skotvallar í Álfsnesi.

Mikil andstaða hefur lengi verið við rekstur skotvallarins í Álfsnesi. Reykjavíkurborg vill að völlurinn fari annað. Í sumar gaf heilbrigðiseftirlitið út starfsleyfi fyrir svæðið til 31. október 2026 með ýmsum skilyrðum. Í kæru vegna útgáfu leyfisins er bent á að samkvæmt rannsókn heilbrigðiseftirlitsins vegna blý- og hávaðamengunar berist blýhögl niður í fjöru og sjó.

Við meðferð málsins vakti heilbrigðiseftirlitið athygli á því að notkun á blýhöglum á skotvellinum sé bönnuð í starfsleyfinu. Starfsemin valdi því ekki blýmengun þar sem notkun blýhagla sé þegar óheimil. Því sé ekki tilefni til að stöðva starfsemina af þeirri ástæðu sem kærendur vísi til.

„Verður af þeim sökum ekki ætlað að hætta sé á blýmengun af völdum umdeildrar starfsemi og verður kröfu kærenda um frestun réttar­áhrifa starfsleyfisins því hafnað,“ segir úrskurðarnefndin.