Stein­grímur J. Sig­fús­son, for­seti Al­þingis, segir að enginn hafi gert at­huga­semdir við kynja­halla í ný­kjörinni stjórn RÚV. Að­eins sitja þrjár konur í stjórninni á móti sex karl­mönnum.

Ný stjórn er kjörin á Al­þingi eftir til­nefningu frá öllum flokkum og svo stað­fest á aðal­fundi RÚV. Ný stjórn var stað­fest í gær.

„Það er á grensunni, það er alveg rétt,“ segir Stein­grímur um kynja­hlut­fallið en flokkarnir skila sínum til­nefningum til hans.

Í 15. grein laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla segir um þátt­töku í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum hins opin­bera að „við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitar­fé­laga skal þess gætt að hlut­fall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá full­trúa er að ræða. Þetta gildir einnig um stjórnir opin­berra hluta­fé­laga og fyrir­tækja sem ríki eða sveitar­fé­lag er aðal­eig­andi að.“

Saman­lagt eru 18 aðal- og vara­menn í stjórn RÚV. Í nýrri stjórn eru sex karlar og þrjár konur og af vara­mönnum eru sex konur og þrír karl­menn.

„Þetta er erfitt við að eiga þegar flokkarnir til­nefna sinn full­trúa og ég fæ lista frá minni­hluta og meiri­hluta og því miður tekst ekki alltaf að tryggja fullt jafn­ræði. Þetta er næsti bær við,“ segir Stein­grímur.

Tekst ekki alltaf að jafnvægi

Það er kosið um stjórnina á þingi og svo er stjórnin stað­fest á aðal­fundi RÚV.

„Form­lega séð er það aðal­fundurinn sem veitir stjórninni um­boð en hún er mynduð með þeim hætti að fyrst er kosinn hópurinn á Al­þingi og svo er það lagt fyrir aðal­fundinum af þeim sem fer með for­ræði fyrir fé­laginu en hann er bundinn af niður­stöðu Al­þingis, sem leggur þetta til,“ segir Stein­grímur.

Þið eigið að sýna for­dæmi fyrir allt sam­fé­lagið?

„Já, við eigum að gera það, það er miður að það tekst ekki alltaf. Það vantar þarna eina konu í aðal­menn svo það sé jafn­vægi í aðal­stjórninni en hópurinn allur er í sæmi­legu jafn­vægi,“ segir Stein­grímur og vísar til þess að saman­lagt séu jafn­margir karlar og konur aðal- og vara­menn.

Spurður hvort að vara­menn taki oft setu á fundi í stað aðal­manna taldi hann þá gera það nokkuð oft en sagði að strangt til tekið, sam­kvæmt jafn­réttis­lögum, þá verði að líta að­skilið á hópana.

Hann segir að það hafi verið fjölgað í stjórninni á sínum tíma svo að allir flokkar gætu komið manni að og nú sé eini flokkurinn sem ekki nær inn manni Flokkur fólksins.

„Vandinn er þessi að Sjálf­stæðis­flokkur og VG, sem eiga tvo menn, þeir standa sig og eru með karl og konu en svo skekkjast kynja­hlut­föllin þegar flokkar sem setja einn mann inn lenda svona. Það hefur oft verið tekist á um þetta og ekki eru allir sam­mála um að jafn­réttis­lögin eigi að túlkast svona for­taks­laust þegar stjórn er mynduð með þessum hætti. Það eru önnur sjónar­mið og lög­mál sem gilda til að tryggja flokkunum aðild og fjöl­breytni þannig. Það hefur enginn gert at­huga­semdir þegar þessi listi myndaðist og það tók enginn þetta upp í kosningu,“ segir Stein­grímur.

Hann segir að eina til­efni sem hann hefði til að gera at­huga­semdir við kynja­hlut­föll hefði verið ef að VG eða Sjálf­stæðis­flokkur hefði til­nefnt tvo karla eða tvær konur en báðir flokkar hafi til­nefnt karl og konu.