Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segir enga þörf á því að hafa áhyggjur af orðspori Íslands eftir dóm yfirdeildar MDE í dag.
„Það er engin ástæða til að hafa uppi stór orð um svartan dag í réttarsögunni, eða hafa áhyggjur af orðspori Íslands, vegna dóms MDE frá því í dag, líkt og stjórnarandstæðingar hafa sagt,“ skrifar Bjarni á Facebook síðu sinni í kvöld en ríkisstjórnin hefur verið harðlega gagnrýnd eftir niðurstöðuna.
„Helstu lagalegu álitamálum að íslenskum rétti hafði þegar verið svarað af Hæstarétti Íslands. Annars vegar í málum sem vörðuðu skaðabótaskyldu ríkisins gagnvart umsækjendum um stöðu dómara við Landsrétt. Hins vegar hafði verið dæmt um það, hvort skipan tiltekinna dómara sem ekki voru á lista hæfnisnefndar um 15 hæfustu, hefði áhrif á niðurstöður þeirra mála, sem þeir höfðu dæmt,“ segir hann enn fremur og vitnar síðan í Hæstarétt Íslands frá því í maí 2018:
,,Er að þessu öllu virtu ekki næg ástæða til að draga á réttmætan hátt í efa að ákærði hafi, þrátt fyrir annmarka á málsmeðferð dómsmálaráðherra, fengið notið í Landsrétti réttlátrar meðferðar máls síns fyrir óháðum og óhlutdrægum dómendum."
„Ekkert fær haggað niðurstöðu Hæstaréttar“
Minnir Bjarni jafnframt landsmenn á að Hæstiréttur Íslands, æðsti dómstóll landsins, hefur þannig komist að „skýrri niðurstöðu um þetta mikilvæga álitamál.“
„Fyrirfram var ljóst að þetta gat ekki breyst með dómi MDE því dómendur á Íslandi skulu í embættisverkum sínum fara einungis eftir lögunum, líkt og segir í stjórnarskránni. Niðurstöður MDE eru ekki bindandi, ganga ekki framar íslenskum lögum.“
Að mati Bjarna hefur verið of lítið fjallað um inntak þeirrar þeirrar þjóðréttarlegu skuldbindingar sem felst í aðild Íslands að Mannréttindasáttmála Evrópu.
„Í dóminum er komið aðeins inn á þetta atriði og bent á að ríki skuli, eftir atvikum, gera ráðstafanir til að bæta úr ágöllum í samræmi við niðurstöður dómsins. Í þessu tilviki sýnist mér, í þessu samhengi, ekki þurfa að gera neinar sérstakar ráðstafanir, m.a. vegna þess að þessi lög, þetta fyrirkomulag við skipan Landsréttar, var einskiptis atburður. Þó er sjálfsagt að dómsmálaráðuneytið leggi á þetta mat og bregðist við ef ástæða þykir til. Það breytir ekki hinu að ekkert fær haggað niðurstöðu Hæstaréttar sem rakin er að framan.“
Þá skrifar hann einnig um að pólitískum átökum um skipan Landsréttar hér heima gleymist oft að ræða málið sjálft. „Kannski gleymist það ekki. Það hreinlega hentar ekki málstað sumra að ræða málefnalega um niðurstöðuna. Þetta er augljóst af upphrópunum nokkurra úr stjórnarandstöðunni í dag.“
Hann bendir einnig á að það séu óumdeild grundvallarréttindi í lýðræðisþjóðfélagi að geta látið reyna á lagalega stöðu sína fyrir hlutlausum dómstóli. Í þessu máli vildi einstaklingur sem dæmdur hafði verið fyrir ölvunaraktstur, og reyndar játað brot sitt, spyrja dómstóla hvort hann hefði fengið að njóta þeirra grundvallarréttinda sem honum eru tryggð í stjórnarskrá.
Bótakröfu hafnað og dómurinn óraskaður
„Í málinu var látið reyna á það, hvort annmarkar við skipan Landsdóms hefðu mögulega áhrif á réttarstöðu hins dæmda. Hvort hann ætti rétt á ómerkingu dómsins. Til vara krafðist hann sýknu, þótt hann hefði játað brot sitt. Málið tapaðist í Hæstarétti,“ skrifar Bjarni.
„Og í dag var bótakröfu hans hafnað af MDE. Ekki verður því annað séð en að staða hans sé, eftir alla þessa málsmeðferð, hin sama og eftir dóm Landsréttar. Dómur Landsréttar stendur óraskaður. Í því er ekkert óvænt. Það lá fyrir strax í maí 2018. Og í dag varð ljóst að engar bætur verða greiddar. Þessi niðurstaða málsins virðist ekki skipta suma neinu máli. En þetta mál snerist nú samt fyrst og fremst um þetta allan tímann,“ skrifar Bjarni að lokum en færslu hans má lesa hér að neðan.
Það er engin ástæða til að hafa uppi stór orð um svartan dag í réttarsögunni, eða hafa áhyggjur af orðspori Íslands,...
Posted by Bjarni Benediktsson on Þriðjudagur, 1. desember 2020