Lyfjastofnun hefur nú borist fimm tilkynningar vegna gruns um aukaverkanir eftir bólusetningu í aldurshópnum 5 til 11 ára, engin þeirra flokkast sem alvarleg.

Þetta kemur fram í svari Lyfjastofnunar við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Tilkynningum hefur fjölgað um fjórar frá því síðastliðinn miðvikudag, þegar aðeins ein tilkynning hafði borist.

Tilkynnt einkenni eru; uppköst, eymsli á stungustað, kláði og útbrot, svimi, höfuðverkur, niðurgangur, magaverkur, liðverkir og húðblæðing á fótum samkvæmt upplýsingum frá Lyfjastofnun.

Í svari stofnunarinnar segir einnig að mikilvægt sé að hafa í huga að um sé að ræða tilkynningar vegna gruns um aukaverkun.

„Það merkir að tilkynnt tilvik hafa átt sér stað í kjölfar bólusetningar gegn COVID-19, en segir ekki til um hvort um orsakasamhengi er að ræða milli tilvikanna og bólusetningarinnar,“ segir jafnframt í svari frá Lyfjastofnun.

Í grein á vef Lyfjastofnunnar frá 5. janúar síðastliðinn er fjallað um bóluefnið sem notað er gegn Covid-19 fyrir aldurshópinn 5 til 11 ára. Þar segir að aukaverkanir séu algengari meðal yngri en eldri.

Þá geri algengar þekktar aukaverkanir oft vart við sig í kjölfar bólusetningar með mRNA-bóluefni hjá börnum, gjarnan eftir að seinni skammtur er gefinn.

Algengustu aukaverkanir, samkvæmt vef Lyfjastofnunar, sem komu fram í klínískri rannsókn hjá börnum í þessum aldurshópi eru eftirfarandi:

  • Verkur á stungustað (>80%)
  • Þreyta (>50%)
  • Höfuðverkur (>30%)
  • Roði og þroti á stungustað (>20%)
  • Vöðvaverkir og kuldahrollur (>10%)
  • Niðurgangur
  • Hiti
  • Ógleði og uppköst

Tilkynnt atvik til Lyfjastofnunar virðast því ríma vel við þekktar aukaverkanir hjá börnum.