Embætti landlæknis hefur ekki enn tekið ákvörðun um það hvort grípa þurfi til sérstakra ráðstafana í tengslum við ferðalög fólks frá Kína til Íslands eftir áramót.

Að sögn kínverskra yfirvalda smitast um fimm þúsund manns á hverjum degi en sérfræðingar segja að raunveruleg tala sé mun hærri.

Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir segir í tölvupósti til Fréttablaðsins að hún fylgist með ástandinu og þá sérstaklega í gegnum Sóttvarnastofnun Evrópu og Evrópusambandsins (ECDC). „Það hafa ekki verið teknar neinar ákvarðanir hér um sérstakar aðgerðir vegna ástandsins í Kína,“ skrifar Guðrún.

Kínversk yfirvöld greindu nýlega frá því að erlendir farþegar myndu ekki lengur þurfa að sæta sóttkví við komuna til landsins eftir 8. janúar á næsta ári. Að sama skapi muni kínverskir ríkisborgarar fá að ferðast til útlanda á ný. Kínversk stjórnvöld hafa ekki greint nákvæmlega frá því hvenær það yrði en segja að kínverskum ferðamönnum verði hleypt úr landi „með skipulögðum hætti“.

Myndbönd hafa birst á kínverskum samfélagsmiðlum sem sýna yfirfull líkhús og langar biðraðir aðstandenda eftir dánarvottorðum. Samkvæmt fréttamiðlinum BBC eru spítalar komnir að þolmörkum og eiga margir erfitt með að verða sér úti um hversdagsleg lyf.

Valur Blomsterberg, Íslendingur sem starfar í Sjanghaí, segir að tíu af ellefu starfsmönnum á skrifstofu hans hafi smitast. Hann segir að bæði hann, kona hans og flestir vinir séu annaðhvort með veiruna eða hafi nýlega jafnað sig á henni.

Fjöldi þjóða hefur tekið ákvörðun um að krefja kínverska ferðalanga um neikvæð kórónaveirupróf við landamæri sín.
Fréttablaðið/Valli

„Það er auðveldara að telja hverjir eru ekki búnir að greinast en hverjir hafa greinst,“ segir Valur og bætir við að margar ríkisstofnanir séu enn lokaðar.

„Við vinnum mjög mikið með bönkum og ríkisstofnunum og það var algjört stopp á því í síðustu viku. Flest bankaútibú voru lokuð og eins og stendur þá eru flestar ríkisstofnanir lokaðar líka. Við erum í beinum samskiptum við fólkið þar og einu skilaboðin sem við fáum eru að það séu einfaldlega ekki nógu margir ósmitaðir til að halda starfseminni gangandi,“ segir Valur.

Hann segir aftur á móti að ástandið sé töluvert betra en það var í mars á þessu ári þegar allri Sjanghaí var skellt í lás. Það sé enginn matarskortur í verslunum og þjónustugreinar þrauki þrátt fyrir erfiðleika.

Í ljósi aðstæðna í Kína hafa nokkur lönd gripið til sérstakra ráðstafana við landamæri sín. Bandaríkin, Ítalía, Japan, Taívan og Indland hafa öll ákveðið að krefja alla ferðalanga sem koma frá Kína um kórónaveirupróf. Þeir sem greinast jákvæðir verða sendir í sóttkví.