Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, segir að niðurstaða nýrrar skýrslu Gæða- og eftirlitsstofnunar (GEV) um meðferðarheimilið að Laugalandi hafi ekki áhrif á setu Braga Guðbrandssonar, fyrrverandi forstjóra Barnaverndarstofu, í nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.

Bragi var endurkjörinn í nefndina í janúar síðastliðnum en kosið er til fjögurra ára í senn. Fram kom í skýrslu GEV að eftirlitsskylda barnaverndar brást á meðan meðferðarheimilið var rekið. Hafa þó nokkrar af þeim konum sem voru vistaðar á heimilinu kvartað undan því sérstaklega hvernig Bragi, og Barnaverndarstofa, brugðust þeim en bæði segjast þær hafa fundað með honum persónulega og kvartað til hans auk þess sem einhverjar þeirra sem voru vistaðar á heimilinu sögðu honum frá því ofbeldi sem þær voru beittar.

„Niðurstaða skýrslunnar lá ekki fyrir þegar endurkjör fór fram. Nefndarmenn eru sjálfstæðir í störfum sínum og stjórnvöld hvorki geta né er þeim heimilt að hafa áhrif á nefndarmenn með nokkrum hætti eftir að kjör hefur farið fram,“ segir í svari Ásmundar um það hvort niðurstaðan hafi áhrif á setu Braga í nefndinni.