Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur ekki fundið neinar sannanir fyrir víðtæku kosningasvindli í forsetakosningunum í síðasta mánuði. Þetta kemur fram í viðtali sem William Barr, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna veitti fréttaveitunni AP í dag, en CNN greinir frá.
„Við höfum ekki fundið vísbendingar um kosningasvindl á þeim mælikvarða að það hefði haft áhrif á niðurstöðu kosninganna,“ er haft eftir Barr.
Mun þetta vera viðsnúningur hjá Barr sem sagði fyrir kosningarnar að utankjörfundaratkvæðin væru ekki örugg og myndu greiða leið svindlara að kjörkössunum.
Síðastliðnar vikur hafa bæði innanríkisöryggismáladeild ríkisins og dómsmálaráðuneytið rannsakað hvort svindlað hafi verið í kosningunum í byrjun nóvember en hvorug stofnun hefur fundið vísbendingar um víðtækt svindl.
Ummæli Barr birtast á sama degi og hann skipaði John Durham sem sérstakan saksóknara til að rannsaka hvort eftirlitsstofnanir Bandaríkjanna gengu of langt í að rannsaka Donald Trump eftir kosningarnar 2016.
Ríkisstjóri Arizona, Doug Ducey, staðfesti í gær Joe Biden sem sigurvegara kosninganna í ríkinu og gaf út að engin ummerki væru um svindl í Arizona. Yfirlýsing Ducey var gagnrýnd af Trump en fjölmörg ríki hafa staðfest Biden sem sigurvegara á síðustu vikum eins og Georgía, Michigan og Pennsylvanía.
Samkvæmt CNN er ómögulegt annað en að ummæli Barr muni skerða samband hans við Trump en hann rak nýverið, Chris Krebs, yfirmann netöryggismála hjá innanríkisöryggismáladeild Bandaríkjanna fyrir svipuð ummæli.
Tveir lögmenn Trumps svöruðu ummælum Barrs í kvöld þar sem þau sögðust vera með sannanir fyrir víðtæku kosningasvindli í að minnsta kosti sex ríkjum en það væru gögn sem dómsmálaráðherrann væri ekki með aðgang að.
„Ég ber virðingu fyrir dómsmálaráðherranum en skoðun hans virðist byggð á engri þekkingu eða rannsókn á þeim frávikum eða gögnum sem til eru um víðtækt kosningasvindl,“ er haft eftir Rudy Giuliani og Jenna Ellis, lögmönnum Trump.
