Dóms­mála­ráðu­neyti Banda­ríkjanna hefur ekki fundið neinar sannanir fyrir víð­tæku kosninga­svindli í for­seta­kosningunum í síðasta mánuði. Þetta kemur fram í við­tali sem Willi­am Barr, dóms­mála­ráð­herra Banda­ríkjanna veitti frétta­veitunni AP í dag, en CNN greinir frá.

„Við höfum ekki fundið vís­bendingar um kosninga­svindl á þeim mæli­kvarða að það hefði haft á­hrif á niður­stöðu kosninganna,“ er haft eftir Barr.

Mun þetta vera við­snúningur hjá Barr sem sagði fyrir kosningarnar að utan­kjör­fundar­at­kvæðin væru ekki örugg og myndu greiða leið svindlara að kjör­kössunum.

Síðastliðnar vikur hafa bæði innan­ríkis­öryggis­mála­deild ríkisins og dóms­mála­ráðu­neytið rann­sakað hvort svindlað hafi verið í kosningunum í byrjun nóvember en hvorug stofnun hefur fundið vís­bendingar um víð­tækt svindl.

Ummæli Barr birtast á sama degi og hann skipaði John Dur­ham sem sér­stakan sak­sóknara til að rann­saka hvort eftir­lits­stofnanir Banda­ríkjanna gengu of langt í að rann­saka Donald Trump eftir kosningarnar 2016.

Ríkis­stjóri Arizona, Doug Ducey, stað­festi í gær Joe Biden sem sigur­vegara kosninganna í ríkinu og gaf út að engin um­merki væru um svindl í Arizona. Yfir­lýsing Ducey var gagnrýnd af Trump en fjöl­mörg ríki hafa stað­fest Biden sem sigurvegara á síðustu vikum eins og Georgía, Michigan og Penn­syl­vanía.

Sam­kvæmt CNN er ó­mögu­legt annað en að um­mæli Barr muni skerða sam­band hans við Trump en hann rak ný­verið, Chris Krebs, yfir­mann net­öryggis­mála hjá innan­ríkis­öryggis­mála­deild Banda­ríkjanna fyrir svipuð um­mæli.

Tveir lög­menn Trumps svöruðu um­mælum Barrs í kvöld þar sem þau sögðust vera með sannanir fyrir víð­tæku kosninga­svindli í að minnsta kosti sex ríkjum en það væru gögn sem dóms­mála­ráð­herrann væri ekki með að­gang að.

„Ég ber virðingu fyrir dóms­mála­ráð­herranum en skoðun hans virðist byggð á engri þekkingu eða rann­sókn á þeim frá­vikum eða gögnum sem til eru um víð­tækt kosninga­svindl,“ er haft eftir Rudy Giuli­ani og Jenna Ellis, lög­mönnum Trump.

Rudy Giulani, lögmaður Trump og fyrrverandi borgarstjóri New York borgar, hefur farið mikinn í fjölmiðlum síðustu daga um víðtækt kosningasvindl.
Fréttablaðið/Getty