Umræða skapaðist á samfélagsmiðlum í nótt um að nýtt gosop hefði mögulega opnast í Geldingadölum. Glöggir þóttust sjá töluverða breytingu á virkni gossins í vefmyndavélum og töldu að mögulega tengdust breytingarnar jarðskjálfta sem varð laust eftir klukkan ellefu í gærkvöldi og var 4,1 af stærð.

Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur Veðurstofunnar, kveðst þó ekki hafa fengið fregnir af nýrri sprungu. „Vaktin okkar í nótt sá ekki þessa sprungu sem var greinilega verið að ræða um á samfélagsmiðlum,“ segir Einar.

„Við vorum líka að fylgjast með vefmyndavélinni hérna í nótt ásamt öðrum myndavélum á svæðinu og við höfum ekkert gosop séð enn.“

Kanna svæðið í dag

Viðbragðsaðilar á Suðurnesjum koma til með að hafa augun opin fyrir breytingum á svæðinu í dag og segir Einar það vera spennandi að heyra hvort þau verði vör við eitthvað.

Það sé þó fátt sem bendi til þess að nýtt gosop hafi myndast. „Það mældist ekkert fall í óróanum sem hefur oft greinst áður þegar nýjar sprungur hafa opnast.“

Hvað varðar skjálfta segir Einar að líklega hafi verið um að ræða gikkskjálfta sem hafi verið innistaða fyrir á svæðinu. „Við teljum að spennan sem var á svæðinu hafi safnast upp áður en gosið hófst og að þarna hafi sú spenna verið að losna.“

Erfitt sé að meta hvort annarra álíka stórra skjálfta sé að vænta en í nótt hafa yfir hundrað eftirskjálfta mælst. „Það er alvanalegt fyrir svona skjálfta og það segir sér sjálft að það er heldur aukin skjálftavirkni á svæðinu út af stóra skjálftanum í gærkvöldi.“