Færsla um að sniðganga vörumerkið Dr. Oetker hafa verið í dreifingu. Hluti af Dr. Oetker heyrir undir ÍSAM, en pizzurnar frá Dr. Oetker heyra undir Innnes. Forstjóri Innnes vakti athygli á færslunni í tilkynningu til Fréttablaðsins en Innnes hefur ekki boðað verðbreytingar.

Magnús Óli Ólafsson, forstjóri Innnes, segir ástandið vera viðkvæmt og að hann skilji að fólk bregðist hart við.

„Þetta er viðkvæmur tími og ég skil að fólk bregðist hart við. Við sem erum í viðskiptalífinu þurfum að hugsa þetta alla leið. Hver og einn sér um sína stöðu og sinn rekstur og þetta er misþungt fyrir hvert fyrirtæki,“ segir Magnús og bætir við að hann geti ekki gagnrýnt aðra fyrir sinn rekstur. Hann segir launahækkanir hafa mismunandi áhrif á innflutnings- og framleiðslufyirtæki.

Aðrar leiðir en verðhækkanir

Magnús segir að aukinn kostnaður við launahækkanir setji pressu á verðhækkun en að Innnes leiti annarra leiða en að boða verðhækkun.

„Það er líka hægt að nálgast verkefnið með öðrum hætti. Við höfum leitað allra leiða til að reka fyrirtækið með eins mikilli hagkvæmni eins og hægt er. Í okkar stöðu ætlum við ekki að hlaupa til og ýta þessum kostnaði út í verðlagið,“ segir Magnús í samtali við Fréttablaðið.

Færsla um að sniðganga vörur ÍSAM hefur verið á dreifingu um samfélagsmiðla. Þar er fólk hvatt til að sniðganga ýmis vörumerki sem eiga að tilheyra ÍSAM. Magnús Óli Ólafsson, forstjóri Innnes, sendi Fréttablaðinu tilkynningu þar sem hann vekur athygli á því að pizzur Dr. Oetker tilheyri ekki ÍSAM heldur Innnes. Innnes hefur ekki boðað neinar verðbreytingar vegna nýrra kjarasamninga og munu því Dr. Oetker pizzur ekki hækka í verði.

Færslan fór af stað á samfélagsmiðlum eftir að fyrirtæki ÍSAM boðaði verkhækkanir verði kjarasamningar samþykktir. Gæðabakstur mun einnig hækka verð um 6,2 prósent vegna þriggja þátta, þá aðallega vegna hækkun hveitis, gengis og kjarasamninga.