Engum starfsmanni hefur verið sagt upp í klínískri þjónustu á Landspítalanum. Þetta staðfestir Ragna Gústafsdóttir, deildarstjórinn á bráðamóttökunni. Búið er að fækka í framkvæmdastjórn og á skrifstofum framkvæmdastjóra.

„Engar uppsagnir hafa átt sér stað í hjúkrun eða hjá öðrum starfstéttum, hvorki hjá læknum né sjúkraliðum, hér á bráðadeild,“ segir Ragna í samtali við Fréttablaðið.

Páll Matthíasson skrifaði um „sársaukafullar uppsagnir“ á Landspítalanum í forstjórapistli sínum sem birtist á föstudag. Hvergi kemur fram hversu mörgum hefur verið sagt upp og ekki hefur náðst í forstjórann við vinnslu fréttar.

Ragna segir líklegt að Páll eigi við um uppsagnir á skrifstofu framkvæmdastjórnar.

„Ég hef ekki heyrt um neinar uppsagnir á klíník og það hafa ekki verið uppsagnir á bráðadeild,“ staðfestir Ragna.