Ragnar Þór Ingólfsson VR, Vilhjálmur Birgissson Verkalýðsfélagi Akraness og Halldór Benjamín Þorbergsson, Samtökum atvinnurekenda, voru sammála um það fyrir fund sem hófst með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra á tíunda tímanum í morgun í Stjórnarráðinu að fundarboð forsætisráðherra hefði komið á óvart. Um ánægjulegt útspil væri að ræða í grafalalvarlegri stöðu.

Allt er í hnút eftir vaxtahækkun Seðlabankans í gær. Hefur verið hótað viðræðuslitum um kjarasamninga og hörðum aðgerðum. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sagði áður en fundurinn hófst með Katrínu að framhaldið væri fullkomlega óljóst.

Vilhjálmur Birgisson sagði að 0,25% prósenta stýrivaxtahækkun Seðlabankans í gær væri skilaboð sem færu mjög illa í launafólk. Trúverðugleiki Seðlabankans væri horfinn.

„Ég get lofað þér því að mínir félagsmenn á lágstrípuðum töxtum eru ekki með sínar tær á Tenerife,“ sagði Vilhjálmur og skaut þar með á Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra.

Um samstöðu verkalýðsforkólfa, hvort þeir vilji slíta viðræðum eða reyna til þrautar að semja líkt og Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar Iðju ræðir í Fréttablaðinu í dag, segir Vilhjálmur að það verði að koma í ljós hve mikil samstaðan verði um næstu skref. Allir séu sammála um að ná inn launahækkunum en takmörk séu fyrir því hvað sé hægt að bjóða fólki.

„Um það stendur kannski ágreiningurinn núna.“

Halldór Benjamín sagði í samtali við Fréttablaðið að ákvörðun Seðlabankans væri mikill afleikur sem myndi hafa alvarlegar afleiðingar að óbreyttu. Málið snerist um traust og orðheldni Seðlabankans.

Um það að Katrín hefði brugðist svo hratt við með boðun neyðarfundar sagðist Halldór vilja bíða með að túlka þau skilaboð uns fundinum lyki.