Bandarísk yfirvöld gáfu í dag út skýrslu um fljúgandi furðuhluti sem beðið hefur verið með mikilli eftirvæntingu. Ekki er víst að skýrslan svari öllum þeim spurningum sem brenna á áhugafólki um fljúgandi furðuhluti og mögulega gesti utan úr geimnum.

Í skýrslunni, sem unnin var af bandaríska varnarmálaráðuneytinu, er farið yfir meira en 140 atvik á síðustu tveimur áratugum þar sem flugmenn á vegum sjóhersins hafa orðið varir við torkennilega hluti á flugi. Nýjustu atvikin sem fjallað er um eru frá 2014 og 2015 en ekki hefur tekist að útskýra nema eitt þeirra.

Pent­ag­on-bygg­ing­in í Was­hingt­on þar sem varn­ar­mál­a­ráð­u­neyt­i Band­a­ríkj­ann­a er til húsa.
Mynd/Flickr

Í henni kemur fram að það sé mat leyniþjónustustofnanna og annarra stofnana að þó að ekki sé hægt að útskýra hvað það sé sem flugmenn hafi orðið varir við þýði það ekki að um geimverur sé að ræða. Hvað veldur sé þó enn á huldu. Í skýrslunni er staðfest að herinn eða stjórnvöld tengist því sem flugmennirnir telja sig hafa séð ekki með nokkrum hætti, þar séu ekki á ferðinni prófanir á flugvélum eða vopnum.

Skýrslunnar hefur verið beðið í hálft ár, síðan að þingmenn komu því skilyrði inn í COVID-19 björgunarpakka bandarískra stjórnvalda að ríkisstofnanir þyrftu að gefa út skýrslu þar sem teknar væru saman upplýsingar um fljúgandi furðuhluti byggt á upplýsingum úr stjórnkerfinu.

Það sem veldur bandarískum stjórnvöldum áhyggjum hvað varðar fljúgandi furðuhluti er að ef þeir eiga sér uppruna á jörðinni fremur en að þeir séu hingað komnir einhvers staðan að úr óravíddum geimsins. Í skýrslunni er rætt um þann möguleika ef orsakirnar séu þróuð vopnakerfi eða flugvélar í eigu óvinaríkja á borð við Rússland eða Kína, sem gæti þýtt að þau stæðu Bandaríkjunum framar í tækniþróun.