„Þetta er bráðdrepandi sjúkdómur,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagins um ristil-og endaþarmskrabbamein en meira en einn í viku deyr hér á landi úr slíku meini.

Að meðaltali greinast 187 með krabbameini og 68 deyja árlega vegna sjúkdómsins. Enn er engin skipulögð skimun viðhöfð hér á landi.

„Þetta er að verða eldgömul saga"

Ísland er eitt Norðurlandanna sem viðhefur ekki almennar skimanir. Í tvo áratugi hefur málið verið reglulega rætt á Alþingi og var þingsálykturnartillaga um hópskimanir samykkt á Alþingi árin 2006 og líka 2007 . „Þetta er að verða eldgömul saga en það var mikil umræða var um þetta á Alþingi upp úr aldamótum, málið hefur verið mjög lengi á dagskrá,“ segir Halla.

Forvarnarkynning vegna ristilkrabbameins var haldin árið 2015 í Háskóla Íslands
Fréttablaðið/Stefán Karlsson

Mikill undirbúningur átti sér stað árið 2015-2016. Hannaður var hugbúnaður, tæki keypt til að greina blóð í hægðasýnum og markmiðið að skimun hæfist haustið 2017. Einnig voru unnar klínískar leiðbeiningar hjá Landlækni. Í þeim undirbúningi með Krabbameinsfélaginu vann Sunna Guðlaugsdóttir, sérfræðingur í meltingarsjúkdómum og Anna Sverrisdóttir, skurðlæknir sem báðar settust síðar í Fagráð skipað af Landlækni um skimun fyrir ristil-og endaþarmskrabbamein. Árið 2016 var stærsta skrefið tekið í átt að skimunum og lagði velferðarráðuneytið 25 milljónir til undirbúningsins og Krabbameinsfélagið 20 milljónir á móti.

Landlæknir birti svo tilkynningu sumarið 2017 um að skimun hæfist strax árið eftir. „Nú hillir undir að unnt verði að hefja skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi í ársbyrjun 2018 enda hefur Krabbameinsfélagið lagt fram ítarlega aðgerðaráætlun um hana,“ stóð þar.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra
Fréttablaðið/Daníel

Orð heilbrigðisráðherra á Alþingi á dögum vöktu því athygli „Mig langar líka að segja að á fjárlögum þessa árs eru 70 milljónir til að undirbúa og annast tækjakaup o.s.frv. varðandi ristil- og endaþarmsskimanir þannig að hægt er að byrja á því,“ sagði Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra þann 3.mars síðastliðinn á Alþingi. Hins vegar hafa áður, eða frá og með árinu 2018 verið ætlaðar 70 milljónum til þessa á fjárlögum en þótt ekkert bóli enn á skimunum.

Nokkurt álitamál hefur verið meðal sérfræðinga hérlendis um hvaða leið skyldi fara, hvort notast ætti einungis við ristilspeglanir eða skima fyrst með sérhæfðu hægðarprófi, svokölluðu FIT prófi sem mælir falið blóð í hægðum. Það gæti hafa tafið málið á einhverjum tímapunkti.

Sunna Guðlaugsdóttir meltingarlæknir inni í risaristlinum sem aðgengilegur var almenningi í Bleiku slaufunni 2015.
Mynd/Krabbameinsfélagið

Fagráðið skilaði tillögu til Skimunarráðs í desember 2019. Skimunarráð er fastskipað sjö sérfræðingum, ekki sérstaklega á sviði meltingasjúkdóma en er Landlækni til ráðlegginga um allar krabbameinsskimanir.

Á vef heilbrigðisráðuneytisins í skýrslu um skimanir sem birt var 29.nóvember síðastiðinn má sjá tillögur Fagráðsins. Ráðið er skipað fimm sérfræðingum í ýmsum sérgreinum, m.a. meltingarsjúkdómum. Ráðið vill tryggja að þátttökuhlutfall verði sem best og að til þess væri blönduð leið betri. Eins er lögð áhersla á að hefja skimun eins fljótt og auðið er og leitast við að breikka aldursbilið og skima fólk frá 50 til 74 ára.

Sunna segir að í fyrrahaust hafi Skimunarráð sent sína samantekt til Landlæknis. Skimunarráð tók undir tillögur Fagráðsins og mælti með að þeim yrði fylgt. Landlæknir sendi svo áfram minniblað úr þeirri samantekt til ráðherra.

Lagt er til að skimun verði í boði fyrir fólk á aldrinum 50 – 74 ára, byrjað á hópnum 60-69 ára sem verði boðið í skimun á tveggja ára fresti með leit að duldu blóði í hægðum eða FIT prófi. Einstaklingum á 51. aldursári verði boðin ristilspeglun sem frumskimun eða FITpróf sem val. Skimun hjá öllum hópnum verði komið á eins fljótt og verða má.

Beðið er svara frá Heilbrigðisráðuneytinu um hvar áætlanir eru staddar.