Gríðarlegur vatnsleki varð í Háskóla Íslands í nótt og liggur starfsemi í nokkrum byggingum niðri. Engar skemmdir urðu hins vegar hjá Árnastofnun þar sem handritasafn Árna Magnússonar er geymt. Handritasafnið er á varðveisluskrá UNESCO og er eitt mesta safn íslenskra menningarverðmæta.
Um fimm hundruð lítrar flæddu inn í Aðalbyggingu Háskóla Íslands, Lögberg, Gimli, Árnagarð, Háskólatorg og Stúdentakjallarann. Verið er að rannsaka upptök lekans en talið er að hann tengist endurnýjun vatnslagna á Suðurgötu. Lekinn stóð í 75 mínútur samkvæmt upplýsingum frá Veitum.
Árnastofnun er til húsa í Árnagarði en engar skemmdir urðu á handritageymslunni samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni. Þar eru geymd 1666 handrit en það síðasta var afhent íslensku þjóðinni frá Danmörku árið 1997. Þó eru enn handrit úr safni Árna geymd í Danmörku. Auk þess má finna þar 1345 íslensk fornbréf í frumriti og tæplega sex þúsund fornbréfauppskriftir. Árnastofnun geymir einnig mörg önnur handrit og handritsbrot sem gefin hafa verið henni af einkaaðilum.
Unnið er að því að dæla vatni úr byggingum Háskólans og áætlað að það verk standi fram eftir degi.