Þór­ólfur Guðna­son, sótt­varna­læknir, segir ekki standa til að sér­reglur muni gilda fyrir bólu­setta hér á landi. „Það er mjög flókið í fram­kvæmd þannig að við verðum með sömu reglur fyrir alla,“ segir Þór­ólfur.

Eitt­hvað hefur borið á því að banda­rískir ferða­menn haldi að þeir séu undan­skildir grímu­skyldu þar sem þeir eru bólu­settir. Starfs­fólk kaffi­húsa í mið­bænum kveðst þurfa að minna á grímu­notkun oft á dag.

„Það er náttúru­lega slæmt ef að ferða­menn eru ekki að fara eftir þeim reglum sem hér gilda. Þeir geta farið eftir reglunum sem gilda í Banda­ríkjunum þar, en þær gilda ekki hér,“ segir Þór­ólfur um málið.

„Það er mjög mikil­vægt að ferða­frömuðir og aðrir sem eru að sjá um þetta fólk brýni fyrir ferða­mönnum að fara eftir okkar reglum.“ Sjald­gæft sé að bólu­settir beri veiruna með sér en það geti þó komið upp.

„Við erum enn þá á þeim stað að við viljum ekki hafa sér­reglur fyrir bólu­setta.“ Þór­ólfur bendir á að reglur um grímu­skyldu í Banda­ríkjunum séu ekki jafn ein­faldar og það að bólu­settir geti hent grímunum. „Það er breyti­legt eftir ríkjum og stöðum innan ríkjanna.“

Þór­ólfur kveðst þó vonast til þess að þegar fram líða stundir verði hægt að slaka á öllum reglum, þar á meðal reglum um grímu­notkun.

„Við þurfum að passa okkur á­fram, við vitum að þetta kemur í bakið á okkur áður en við vitum af.“ Allir þurfi að gera sitt besta þrátt fyrir til­slakanir. „Það þarf bara hver og einn að passa sig á þessum grunn­at­riðum eins og hægt er þó að búið sé að slaka á sam­eigin­legum tak­mörkunum.“