Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir ekki standa til að sérreglur muni gilda fyrir bólusetta hér á landi. „Það er mjög flókið í framkvæmd þannig að við verðum með sömu reglur fyrir alla,“ segir Þórólfur.
Eitthvað hefur borið á því að bandarískir ferðamenn haldi að þeir séu undanskildir grímuskyldu þar sem þeir eru bólusettir. Starfsfólk kaffihúsa í miðbænum kveðst þurfa að minna á grímunotkun oft á dag.
„Það er náttúrulega slæmt ef að ferðamenn eru ekki að fara eftir þeim reglum sem hér gilda. Þeir geta farið eftir reglunum sem gilda í Bandaríkjunum þar, en þær gilda ekki hér,“ segir Þórólfur um málið.
„Það er mjög mikilvægt að ferðafrömuðir og aðrir sem eru að sjá um þetta fólk brýni fyrir ferðamönnum að fara eftir okkar reglum.“ Sjaldgæft sé að bólusettir beri veiruna með sér en það geti þó komið upp.
„Við erum enn þá á þeim stað að við viljum ekki hafa sérreglur fyrir bólusetta.“ Þórólfur bendir á að reglur um grímuskyldu í Bandaríkjunum séu ekki jafn einfaldar og það að bólusettir geti hent grímunum. „Það er breytilegt eftir ríkjum og stöðum innan ríkjanna.“
Þórólfur kveðst þó vonast til þess að þegar fram líða stundir verði hægt að slaka á öllum reglum, þar á meðal reglum um grímunotkun.
„Við þurfum að passa okkur áfram, við vitum að þetta kemur í bakið á okkur áður en við vitum af.“ Allir þurfi að gera sitt besta þrátt fyrir tilslakanir. „Það þarf bara hver og einn að passa sig á þessum grunnatriðum eins og hægt er þó að búið sé að slaka á sameiginlegum takmörkunum.“