Neytendastofu berast vikulega ábendingar um duldar auglýsingar á samfélagsmiðlum en enn hefur engum sektum verið beitt vegna þeirra. Það sem af er þessu ári hefur Neytendastofa fengið 77 ábendingar um duldar auglýsingar sem vörðuðu 169 einstaklinga eða fyrirtæki.

Frá árinu 2016 varð mikil aukning í að vörur og þjónusta væru kynntar með þessum hætti, segir í svari Neytendastofu við fyrirspurn Fréttablaðsins um brot svonefndra áhrifavalda.

Engin skilgreindur áhrifavaldur

Sérstaklega jókst eftirlit með svonefndum áhrifavöldum vegna lítt merktra auglýsinga á vörum og þjónustu gegn endurgjaldi. Neytendastofa styðst ekki við neina skilgreiningu á því hver telst áhrifavaldur og skiptir engu hve margir fylgja viðkomandi einstaklingi á samfélagsmiðli sem er vanalega á Instagram, Facebook, Snapchat og Youtube.

Áhrifavaldar benda hvor á annan

Ábendingar um lögbrot koma víða að og meðal annars frá áhrifavöldunum sjálfum. „Eins og í öllum öðrum greinum þá kemur fyrir að ábendingar berist frá keppinautum. Stofnunin fer eins með ábendingarnar hvaðan sem þær koma," segir í svari Neytendastofu.

Neytendastofa hefur tekið 38 mál af þessum toga til meðferðar og tólf þeirra leiddu til formlegrar ákvörðunar, nú síðast vegna umfjöllunar leikkonunnar Kristínar Pétursdóttur um margvíslegar vörur og þjónustu þar sem hún taldist hafa brotið þrjár greinar laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

Bann var sett við auglýsingum Kristínar að viðlögðum annars sektum sem er samskonar ákvörðun og í öðrum málum af þessum toga. Sektir hjá Neytendastofu geta numið allt að 10 milljónum en í flestum tilvikum er sektarheimild fyrir fyrsta brot á bilinu fimmtíu þúsund krónur til einnar milljónar.

Einstaklingar sem fjallað hafa um vörur og þjónustu hafa kvartað fyrir því að reglur Neytendastofu sé ekki nægilega skýrar og benda t.d. á að engin regla sé á því hver sé skilgreindur áhrifavaldur en fjöldi fylgjenda hljóti að skipta máli.

Eftirlitslögin sem farið er eftir snúa aðallega að neytendavernd og því að neytendur eigi rétt á því að vita hvenær verið er að reyna að selja þeim vöru eða þjónustu eins og segir á vef Neytendastofu þegar leiðbeininingar voru gefnar út árið 2016.