Allar takmarkanir hér innanlands vegna COVID-19 verða felldar úr gildi á miðnætti. Þetta sagði Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra á blaða­manna­fundi ríkis­stjórnarinnar sem hófst í Safna­húsinu kl. 11:00. Hún segir Ísland fyrst norðurlanda til að grípa til slíkra aðgerða. Eins og fram hefur komið skilaði sóttvarnalæknir minnisblaði sínu til heilbrigðisráðherra í gær.

Katrín Jakobsdóttir, Svandís Svavarsdóttir, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Þórólfur og Rögnvaldur eru á fundinum til svara. Katrín notaði tækifærið í upphafi til að þakka fólkinu í landinu fyrir velgengni í bólusetningu.

Í þessu felst meðal annars fullt afnám grímuskyldu, nándarreglu og fjöldatakmarkana. „Í raun erum við að endurheimta á ný það samfélag sem okkur er eðlilegt að búa í og sem við höfum þráð, allt frá því að heimildir sóttvarnalaga til að takmarka samkomur voru virkjaðar vegna heimsfaraldurs fyrir rúmu ári, þann 16. mars 2020,“ segir heilbrigðisráðherra.

Ákvörðun um afléttingu allra samkomutakmarkana er í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis. Þann 1. júlí taka gildi breyttar reglur varðandi sýnatökur á landamærum.

Ein­hvers­konar sam­komu­bann sem og aðrar takmarkanir hafa verið í gildi hér á landi frá því þann 16. mars 2020 þegar Þór­ólfur Guðna­son, sótt­varna­læknir sendi Svan­dísi Svavars­dóttur heil­brigðis­ráð­herra sitt fyrsta minnis­blað vegna sótt­varna. Þá var bann lagt við skipu­lögðum við­burðum fleiri en 100 manna og tveggja metra reglan kynnt í fyrsta sinn.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra á fundi dagsins.
Fréttablaðið/Ernir

„Við sem sam­fé­lag höfum staðist á­lags­próf með miklum á­gætum. Við eigum að muna að vera glöð með það, klappa okkur sjálfum á bakið en fyrst og fremst að þá tókst okkur það vegna þess að við erum verið ó­hrædd við það að sýna um­burðar­lyndi og skilning og hlýju hvert gagn­vart hvert öðru,“ segir Svandís Svavarsdóttir.

Afléttingaráætlun stjórnvalda sem kynnt var í lok apríl gerir ráð fyrir því að öllum takmörkunum verði aflétt síðari hluta júnímánaðar, þegar 75 prósent landsmanna hafa fengið minnst einn skammt af bóluefni. Samkvæmt upplýsingavef almannavarna er það hlutfall í dag 87,4 prósent.

Sögu samkomubannsins þekkja ein­fald­lega allir. Ís­lendingar þurftu enda í kjöl­farið að sætta sig við slík bönn í ein­hverju formi, þar sem leik­hús, líkams­ræktar­stöðvar, tón­leika­staðir, kvik­mynda­hús og sund­laugar voru ýmist með lokað eða opið þess á milli með miklum tak­mörkunum. Raðir utan verslanna urðu dag­legt brauð á tíma­bili.

Sam­komu­bannið var svo ýmist hert eða slakað á því, eftir stöðu far­aldursins. Bannið fór upp í allt að 500 manns síðasta sumar og mest niður í 10 manna bann. Gripið var til 10 manna banns í fyrsta skiptið í októ­ber 2020 og síðast var það gert fyrir einungis rúmum þremur mánuðum, þegar ríkis­stjórnin til­kynnti á blaða­manna­fundi í Hörpu um hertar að­gerðir, þann 24. mars 2021.

Katrín var einstaklega glöð í bragði á fundi dagsins. Hún biðlaði til landsmanna um að halda áfram að sinna einstaklingsbundnum sóttvörnum.
Fréttablaðið/Ernir

Breytingar á landamærum

Þann 1. júlí verður sýnatökum hætt hjá þeim sem framvísa gildum vottorðum um bólusetningu með bóluefnum sem Lyfjastofnun Evrópu og/eða Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hafa viðurkennt. Bólusetning telst gild tveimur vikum eftir að hlutaðeigandi fékk síðari skammt bóluefnis, en hafi fólk verið bólusett með bóluefni Janssen þarf ein vika að hafa liðið frá bólusetningu.

  • Sýnatöku verður hætt hjá börnum sem fædd eru 2005 eða síðar.
  • Þau sem framvísa gildum vottorðum um bólusetningu og fyrri sýkingu af völdum Covid-19 og börn fædd 2005 og síðar þurfa ekki að framvísa neikvæðum PCR-vottorðum við komuna til landsins frá og með 1. júlí.
  • Í tilvikum þeirra sem ekki geta framvísað gildum vottorðum um bólusetningu gegn Covid-19 eða fyrri Covid-19 sýkingu þarf áfram að framvísa neikvæðu PCR-vottorði við byrðingu og á landamærum, undirgangast skimun með PCR-prófi við komuna til landsins og dvelja í sóttkví í 5 daga og undirgangast seinni skimun að henni lokinni.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Sóttvarnalæknir, heilbrigðisráðherra, forsætisráðherra og menntamálaráðherra kynntu fyrsta samkomubannið, sem var 100 manna bann, 13. mars 2020.
Fréttablaðið/Ernir
Síðasti blaðamannafundur vegna samkomubanns í mars. Ríkisstjórnin kynnti herðingar á takmörkunum, 10 manna samkomubann, þann 24. mars síðastliðinn eftir fjölgun smita.
Fréttablaðið/Ernir