Ekkert verður af sáttum í að minnsta kosti tólf af þeim átján málum sem eru til meðferðar hjá Mannréttindadómstól Evrópu (MDE) og byggja á sömu málsástæðum og Landsréttarmálið.

MDE setti málin í sérstakt sáttaferli skömmu fyrir áramót. Í erindum, sem ríkislögmanni og kærendum málanna bárust frá dómstólnum af því tilefni, kom fram að næðust ekki sættir í málunum færu þau til hefðbundinnar efnismeðferðar og dómsálagningar á grundvelli fyrirliggjandi dómafordæmis.

Er þar vísað til niðurstöðu yfirdeildarinnar í Landsréttarmálinu sem kveðinn var upp 1. desember síðastliðinn.

Var frestur til að ná sáttum upphaflega veittur til 16. mars en ríkislögmaður staðfesti við Fréttablaðið um miðjan síðasta mánuð að óskað hefði verið eftir lengri fresti til að ná sáttum í sautján af átján málum. Hinn framlengdi frestur rennur út fyrir hádegi í dag.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, sem fer með fyrirsvar í tólf af þeim sautján málum sem tekin voru til sáttameðferðar, staðfestir að sáttaumleitunum sé lokið án árangurs og hann hafi gert dómstólnum viðvart um það fyrir hönd umbjóðenda sinna.

Hann gefur þó ekki upp á hverju hafi strandað í sáttaumleitunum vegna skilyrðis um trúnað sem um þær gildi. Embætti ríkislögmanns vildi ekki svara fyrirspurn Fréttablaðsins um málið í gær þar sem fresturinn væri ekki liðinn.

Um er að ræða sakamál í öllum tilvikum sem eru því marki brennd að hafa verið dæmd í Landsrétti af einhverjum hinna fjögurra dómara sem ekki voru skipaðir í samræmi við lög þegar skipað var upphaflega í réttinn haustið 2017.

Meðal þeirra mála sem um ræðir er mál Jens Gunnarssonar, fyrrverandi rannsóknarlögreglumanns, sem dæmdur var fyrir brot í starfi og dæmdur í fimmtán mánaða fangelsi.