Enginn flugvallarrúta hefur verið starfrækt til og frá Leifsstöð síðan 16. janúar síðastliðinn. Þetta staðfestir Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Reykjavík Excursions í samtali við Fréttablaðið. Samkeppnisaðilar á borð við Gray Line og Airport Direct hafa ekki verið í akstri frá því síðastliðið vor og því enginn rúta í boði fyrir komufarþega.

Björn segir að akstur liggi niðri vegna þess að fáir hafi nýtt sér þjónustuna. „Við vorum að keyra fram í janúar en það borgaði sig ekki lengur fyrir okkur að halda úti rútuakstri. Það væri skynsamlegt að þetta væri í samstarfi við stjórnvöld þannig að það væru ferðir á milli til að sinna þessu," segir Björn.

Líkt og kom fram á upplýsingafundi almannavarna þann 8. febrúar síðastliðinn var þriðji hver farþegi sem kom til landsins sóttur á flugvöllinn, sem er þvert á þær reglur sem gilda um komu til landsins en komufarþegar þurfa að sæta sóttkví þar til niðurstöður úr síðari sýnatöku eru tilkynntar.

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra, lýsti yfir áhyggjum sínum af þessari þróun á fundinum og sagði það vonbrigði að fólk væri ekki að virða reglur.

Víðir segir í samtali við Fréttablaðið í dag að unnið sé að því að koma rútunni aftur í gang. „Það er öruggari leið fyrir okkur en margt annað að fólk noti rútuna til að koma sér af vellinum. Samgöngustofa hefur tekið þetta verkefni að sér og ætlar að setja sig í samband við rútufyrirtækin," segir Víðir.

Mikill verðmunur

Þar sem að enginn rúta keyrir nú frá Leifsstöð og ekki er leyfilegt að sækja fólk sem ferðast til Íslands, hafa komufarþegar um þrjá valkosti að ræða, taka leigubíl, bílaleigubíl eða hafa einkabíl til afnota sem bíður þeirra á vellinum.

Leið 55 á vegum Strætó gengur enn upp á völl en þeir sem eru nýkomnir til landsins mega ekki ferðast með almenningssamgönum öðrum en flugvallarrútunni, sem fékk undanþágu frá Samgöngustofu síðastliðið sumar.

Verð aðra leið með leigubíl er á bilinu 15.500 til 16.000 krónur. Reykjavík Excursions hefur verið að bjóða fólki upp á þá þjónustu að leigja bílaleigubíl frá Keflavíkurflugvelli. Bílinn kostar 6.990 krónur og svo kostar auka 3.000 krónur að láta sækja bílinn heim til viðkomandi, samtals um 10 þúsund krónur. Önnur leið í rútinni er á 3.299 krónur og því um töluverðan verðmun að ræða.

„Við vitum að peningar skipta auðvitað máli í þessu öllu, eins og við höfum séð á greiðslum fyrir sýnatökur á landamærum. Fólk er að leita sér að hagkvæmum leiðum til að koma sér heim. Þetta er einn af þeim veikleikum sem við sáum í greiningunni okkar á stöðunni eins og hún er í dag. Við höfum óskað eftir því að rúturnar fari aftur í akstur og þetta er verkefni sem Samgöngustofa hefur tekið að sér," segir Víðir að lokum.