Engar rannsóknir eru til um blóðmagn íslenskra hesta og sömuleiðis hefur aldrei verið rannsakað hversu hátt hlutfall af heildarblóðmagni hrossa er óhætt að taka með viku millibili.

„Miðað við núverandi þekkingu er ekki hægt að reikna út hversu mikið blóð má taka úr fylfullum, mjólkandi hryssum vikulega í 8 vikur,“ segir í svari frá Sigríði Björnsdóttur yfirdýralækni í hrossasjúkdómum hjá Matvælastofnun, við fyrirspurn frá Ole Antoni Bieltvedt, formanni Jarðarvina.

Mikið hefur verið fjallað um blóðmagn íslenska hestsins vegna blóðtöku á fylfullum hryssum til lyfjaframleiðslu. Hátt í fimm lítrar af blóði eru teknir vikulega úr fylfullum hryssum á meðan hormónið eCG, einnig kallað PMSG, finnst í blóði þeirra. Þetta er 14 prósent af heildarblóðmagni ef miðað er við að íslenski hesturinn sé með um 36 til 37 lítra af blóði.

Blóðmerahald hefur verið stundað á Íslandi í 40 ár en engar rannsóknir hafa verið gerðar sem staðfesta heildarblóðmagn íslenska hestsins og hversu mikið er eðlilegt að taka úr þeim í vikulegri blóðtöku.
Mynd: Skjáskot

„Þegar ég skoða þetta nánar sé ég að það er mjög lítið um rannsóknir á blóðmagni í hrossum og ég fann enga slíka rannsókn byggða á íslenska hestinum.“


Gagnrýnendur á blóðmerahald telja að blóðmagn íslenska hestsins hafi verið ofmetið og að í raun sé 20 prósent af blóðmagni fylfullra hryssa tekið úr þeim við blóðtöku sem samkvæmt dýraverndarsinnum er algjör yfirkeyrsla.

„Samkvæmt rannsóknum má reikna með að hestar hafi að jafnaði 75-80 ml af blóði á kg. Íslenski hesturinn er að meðaltali 350 kg. Samkvæmt því má gera ráð fyrir að heildarblóðmagn sé um 26–28 lítrar,“ skrifaði Rósa Líf Darradóttir læknir skrifaði í grein á Vísi í desember í fyrra.

Nú hefur MAST staðfest að ekki séu til rannsóknir sem staðfesta heildarblóðmagnið. Viðmið um blóðmagn í hverri blóðtöku byggir einungis á reynslu Ísteka og mælingum þeirra.

„Þegar ég skoða þetta nánar sé ég að það er mjög lítið um rannsóknir á blóðmagni í hrossum og ég fann enga slíka rannsókn byggða á íslenska hestinum,“ sagði Sigríður. Einnig tekur hún fram að engar rannsóknir séu til um hversu hátt hlutfall af heildarblóðmagni hrossa sé óhætt að taka með viku millibili.

Helsti velferðarmælikvarðinn sé eftirlit með heilbrigði og holdafari hryssnanna ásamt mælingum á blóðrauðu.

Sigríður Björnsdóttir hjá MAST.

„Með öðrum orðum hafið þið leyft starfsemi um langt árabil án þess að þið hefðuð hugmynd um hvað þið voruð að gera.“

MAST tekur fram að gögn frá lyfjatæknifyrirtæknu Ísteka um styrk blóðrauðu hjá blóðmerum haldist allt blóðtökutímabilið innan almennra viðmiðunargilda fyrir heilbrigð hross. Sömuleiðis hafi skráningar sýnt að afföll blóðmera hafi verið um eða innan við 0,1 prósent ár hvert.

Frá árinu 2017 hefur MAST gert kröfu um að Ísteka mæli reglulega styrk blóðrauða (hemoglobin) hjá marktæku úrtaki af blóðtökuhryssum fyrir blóðtöku og á blóðtökutímabilinu og skili stofnuninni niðurstöðum þeirra mælinga annar hver ár. Úr þessum gögnum hér fyrir neðan má lesa að blóðtökuhryssur eru við upphaf blóðtökutímabilsins tiltölulega háar í blóðrauða (13,1 – 13,9 g/dL) en styrkur próteinsins lækkar við fyrstu 2-3 blóðtökurnar niður í 10,6 g/dL að meðaltali og helst nokkuð stöðugur eftir það.

Niðurstöður mælinga á blóðrauðu samantekin frá árinu 2011 til 2021 ásamt upplýsingum um fjölda hryssna sem liggja að baki hverju meðalgildi

Flest afföll á blóðmerum eru rakin til slysa en af þeim sökum hefur þurft að aflífa eina til tvær hryssur árlega á blóðtökutímabilinu. Dýralæknar hafa veitt MAST upplýsingar um tíðni fylgikvilla sem má sjá hér fyrir neðan.

„Fram kom að lost af völdum blóðfalls er með öllu óþekkt í tengslum við blóðtöku til lyfjaframleiðslu. Klums (fall í styrk kasíum í blóði) er afar fátítt í blóðtökustóðum og sömuleiðis er mjög lítið um að hryssur séu teknar úr blóðtöku vegna skemmda á megin bláæð (einn dýralæknanna mundi eftir að það hefði gerst í eitt skipti) en stöku sinnum kemur fyrir að skipta verði um æð (hlið), eða meðhöndla sýkingu á stungustað,“ segir Sigríður.

Samkvæmt upplýsingum frá MAST bendir ekkert til að ónæmiskerfið bíði hnekki og frjósemi er afar góð (86 prósent hryssa sem Ísteka fékk send sýni úr 2021 voru fyljaðar). Ending blóðmera er sömuleiðis góð að sögn MAST en meðalaldur þeirra er 10,7 ár.

Upplýsingar frá dýralæknum sem voru ábyrgir fyrir blóðtöku á síðasta ári um tíðni fylgikvilla og hverjir þeir væru.

Ole Anton segir óásættanlegt að gengið sé svo hart að íslenskum hryssum án rannsókna um velferð þeirra.

„Með öðrum orðum hafið þið leyft starfsemi um langt árabil, þar sem augljóslega hefur verið gengið mjög hart að íslenskum hryssum, án þess, að þið hefðuð hugmynd um, hvað þið voruð að gera og hvaða mörk og rammi skyldu gilda um þessa starfsemi, til að tryggja velferð dýranna, sem er einmitt ykkar verkefni og skylda!“ sagði Ole Anton í svari til MAST.

„Hér á Íslandi er verið að taka blóð af hryssum, sem eru mest bæði fylfullar og mjólkandi, sem nemur 15 til 20 prósent af blóði þeirra, vikulega í 8 vikur. Fyrir mér og sennilega öllum, sem hafa sett sig inn í þetta, er þetta óheyrilegt, óásættanlegt og MAST og okkur Íslendingum til háborinnar skammar. Hvar eru vísindin stödd og hvar er siðferðið og dýravelferðin statt í þessu landi?“

Ole Anton biður MAST og Fagráð um velferð dýra að hverfa tafarlaust frá leyfisveitingum og stuðningi við blóðmerahald, sem hann segir hafa byggst á skorti á upplýsingum og þekkingarleysi.

Ole Anton Bieltvedt, formaður Jarðarvina.