Við göngu­leiðina að gos­stöðvunum eru engar leið­beiningar um að börn eigi ekki að fara að gosinu, en sér­stakt skilti hefur verið sett upp til að vara fólk við því að taka með sér hunda.

Mörg dæmi eru um að fólk taki börnin sín, mjög ung börn, með að gos­stöðvunum í göngu­poka. Allt niður í eins árs gömul börn.

Að sama skapi er á vef­síðu safetra­vel.is og á vef al­manna­varna/eld­gos engar leið­beiningar til þeirra sem ekki eru ís­lensku­mælandi að finna um að taka ekki börn með sér á gos­stöðvar, en á öllum þessum stöðum er að finna leið­beiningar um að taka ekki hunda að gos­stöðvunum.

Í dag­legum til­kynningum lög­reglunnar á Suður­nesjum segir að „börnum, barns­hafandi konum og öldruðum sé ráð­lagt frá því að fara á gos­stöðvarnar ef ein­hver loft­mengun er yfir­vofandi“, en upp­lýsingarnar eru að­eins á ís­lensku.

Þorsteinn segir að ung börn eigi ekkert erindi að gosstöðvunum.
Fréttablaðið/Ernir

Ágætt viðmið að börnin muni eftir ferðinni

Þor­steinn Jóhanns­son, sér­fræðingur í loft­gæðum hjá Um­hverfis­stofnun, segir að ekki sé mælt með því að ung­börn séu við gos­stöðvarnar

„Við erum búin að senda frá okkur nokkrum sinnum að börn eigi ekkert erindi þarna og oft er ég spurður á móti hversu ung börn og það er erfitt að gefa fast svar en al­menna svarið er lík­lega að það sé lág­mark að börnin muni eftir þessu sjálf,“ segir Þor­steinn.

Hann segir að það sé ekki vel rann­sakað hver á­hrifin séu ná­kvæm­lega á lungu barna, sér­stak­lega ung­barna en það verði að hafa í huga að styrkir mengandi loft­tegunda við gos­stöðvarnar séu mjög háir og miklu hærri en mælist nokkurn tímann í byggð.

„Á hverjum degi upp á út­sýnis­hólnum, sem er lík­lega reyndar að lokast núna, eru gildi upp á tvö til þrjú þúsund mí­krógrömm og maður á ekki að vera að út­setja börn fyrir því, sér­stak­lega lítil ó­þroskuð lungu. Börn eiga bara alls ekkert erindi þarna og alls ekki unga­börn,“ segir Þor­steinn.

Sam­kvæmt heimildum blaðsins voru þó­nokkrir sem gengu upp að gosinu um helgina með börn í göngu­poka.

„Þetta er hættu­svæði af mörgum á­stæðum og meðal annars vegna gasmengunar,“ segir Þor­steinn.

Hann segir að það þurfi að endur­taka svona upp­lýsingar og einnig sé mjög mikil­vægt að halda slíkum upp­lýsingum að ferða­mönnum sem koma hingað til lands og vilja sjá eld­gosið.

„Því þau sáu líklega ekki upplýsingafund um þetta sem var fyrir mánuði eða meira,“ segir Þor­steinn að lokum.

Rögnvaldur kannaðist ekki við að sérstakar leiðbeiningar væru til fyrir ferðamenn.
Fréttablaðið/Anton Brink

Engar sérstakar leiðbeiningar um börn á ensku

Rögn­valdur Ólafs­son, lög­reglu­full­trúi hjá al­manna­vörnum, segir að það hafi mikið verið rætt í upp­hafi þegar gosið hófst að börn ættu ekki að vera þar en það hefði ekki verið mikið til um­ræðu undan­farið.

Mikil aukning hefur verið á fjölda ferða­manna sem koma til landsins. Gera má ráð fyrir því að mörg þeirra ætli sér að gosinu og að á ferða­lagi með ein­hverjum þeirra séu lítil börn.

Hann kannaðist ekki við að sér­stakar leið­beiningar væru út­búnar fyrir ferða­menn þegar þau koma til landsins og þegar fólk er við gos­stöðvarnar fær það sms, á ensku, um að gæta að sótt­vörnum og er vísað á síðuna www.al­manna­varnir/eld­gos en þar er engar upp­lýsingar um það að finna heldur.

Hér að neðan má sjá þær leiðbeiningar sem er að finna á safetravel.is til ferðamanna um gosstöðvarnar.