Ingunn Lára Kristjánsdóttir
ingunnlara@frettabladid.is
Laugardagur 16. júlí 2022
15.00 GMT

„Ég hef aldrei átt mann og ætla mér ekki að eiga mann,“ segir Silja Ívarsdóttir, sem kemur úr hópi Einstakra mæðra, félagi kvenna sem hafa valið að eignast börn upp á eigin spýtur. Hún segist alltaf hafa vitað að hún myndi eignast barn ein.

Fréttablaðið settist niður með henni og Ingu Sif Daníelsdóttur og Kristínu Guðmundsdóttur, en þær hafa allar eignast börn einar síns liðs með tækni- eða glasafrjóvgun. Þær kynntust í gegnum félagið Einstakar mæður. Þær segja hópinn fjölbreyttan og samanstanda af konum sem hafa eða eru að reyna að eignast börn með tæknifrjóvgun eða í gegnum ættleiðingu.

Ýmsar ástæður geta legið að baki þess að kona ákveður að fara þessa leið. Það getur verið út af aldri eins og í tilfelli Ingu Sifjar og Kristínar eða einfaldlega vegna þess að þær vildu eignast barn án maka, eins og í tilfelli Silju.

Þær segja takmarkaðar upplýsingar fyrir konur sem vilja eignast börn án maka og að þær vilji brúa þetta bil. Megintilgangur félagsins sé að standa vörð um hagsmuni félagskvenna og barna þeirra, efla samskipti þeirra á meðal og veita upplýsingar um ýmis mál sem að þeim snúa.

Silja hefur alltaf vitað að hún vildi eiga barn ein.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Karla geta leikið sér alla ævi

Aðspurðar um meðalaldur einstakra mæðra segir Kristín að hann sé 38 til 39 ára.

„Meðalaldurinn þegar fyrsta barn kemur er 38. Þá er klukkan farin að tifa svolítið fyrir konur og þær hafa kannski beðið eftir einhverjum sem aldrei kom. Þá hugsa þær, jæja, ég verð bara að gera þetta ein,“ segir Kristín.

Kristín segir að karlmenn hafa alla ævi sína til að leika sér en að klukkan tifi hjá konum.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Inga Sif segir að yngsti einstaka móðirin sé 24 ára. „Það er alveg kjörtími til að eignast barn en oft eru karlmenn ekki tilbúnir til að eignast börn á þessum aldri,“ segir hún og Kristín kinkar kolli. „Einmitt,“ segir Kristín. „Þeir hafa alla ævi sína til að leika sér en klukkan tifar hjá konum.“

Þær segja algengt að konur íhugi þessa leið upp úr 35 ára aldri. Konur sem vilja eignast börn einar síns liðs, sem og pör sem glíma við ófrjósemi og samkynja pör hafa aðeins einn valkost þegar kemur að frjósemismeðferðum sem er fyrirtækið Livio, áður Art Medica.

Opnir og lokaðir sæðisgjafar

Ferlið getur verið flókið og kostnaðarsamt en þá kemur félagið sterkt inn. Konurnar halda reglulega hittingu, allt frá leikskólasamkomum í útilegur. Kristín var einmitt nýkomin úr slíkri útilegu þegar hún hitti okkur. Þær hafa skapað umræðuvettvang fyrir konur til að ræða sín á milli um allt milli himins og jarðar og eru meira að segja með viðburðarnefnd.


„Þegar ég var að byrja kostaði sæðið 35 þúsund kall en nú er þetta komið upp í 100 þúsund eða meira fyrir hvert strá.“


Staðan í dag er allt önnur er hún var þegar elstu meðlimir Einstakra mæðra byrjuðu í ferlinu. Í fyrstu var ekki hægt að vita hver sæðisgjafinn væri.

„Margar eldri konur höfðu ekki val um opinn sæðisgjafa, þá voru allir sæðisgjafar lokaðir sem þýðir að það var ekki hægt að finna út hver maðurinn væri. Margar kynslóðir af börnum fæddust á Íslandi sem gátu aldrei fundið uppruna sinn,“ segir Kristín um fyrstu ár tæknifrjóvgunar á Íslandi. Í dag er hægt að rekja margt með DNA rannsóknum og netinu og umræður eiga sér stað víða um Evrópu að banna nafnleynd sæðisgjafa.

Hundrað þúsund króna sæði

Hver skammtur af sæði, svokallað strá, getur kostað fúlgur fjár auk geymslukostnaðar.

„Þegar ég var að byrja kostaði sæðið 35 þúsund kall en nú er þetta komið upp í 100 þúsund eða meira fyrir hvert strá,“ segir Kristín. Á vef Evrópska sæðisbankans má sjá að strá frá lokuðum sæðisgjafa kostar 648 evrur en frá opnum kostar 895 evrur. Talsvert fleiri kjósa að vera lokaðir.

Strá frá opnum sæðisgjöfum er dýrara en frá lokuðum. Hægt er að skoða barnamyndir af sæðisgjöfum, hlusta á raddupptöku, sjá skrift sæðisgjafans og lesa lýsingar starfsfólks sæðisbankans af manninum.
Evrópski sæðisbankinn

Konur á Íslandi þurfa að fara á heilbrigðisstofnun fyrir tæknifrjóvgun en í Bandaríkjunum hafa konur þann valkost að panta sæði heim að dyrum. Svokölluð tæknisæðingapartý eru alls ekki ný af nálinni þar.

„Þær geta pantað sæði heim til sín og gert þetta sjálfur,“ útskýrir Silja og segir ferlið nokkuð einfalt. „Tekur eina sekúndu,“ segir hún og leikur eftir lækni að nota sprautu. „Bara blúbb og bæ.“

Þær segjast allar þrjár hafa valið opinn sæðisgjafa, langflestar konur velji það. „Ef ég væri getin með sæðisgjafa myndi ég alltaf vilja vita um uppruna minn,“ segir Silja.

Inga Sif segir áhugavert að sjá konur byrja í ferlinu frá 24 ára aldri. Oft sé konur tilbúnar fyrr til að eignast börn miðað við karlmenn.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Inga Sif segir að sæðisgjafar megi gefa til tveggja fjölskyldna á Íslandi. „Ég fann einmitt út eftir að ég keypti strá að önnur fjölskylda á Íslandi keypti frá sama gjafa,“ skýtur Silja inn í. Þannig er möguleiki að börnin eigi hálfsystkini einhvers staðar á Íslandi og sömuleiðis um allan heim.

„En auðvitað geturðu ekki vitað hvort þetta hafi lukkast hjá þeim,“ bætir Kristín við.

Engin börn fædd í apríl

Ferlið getur verið flókið og erfitt fyrir konur. Þótt frjóvgunin sjálf taki bara eina sekúndu þá er getnaður ekki eins einfaldur og að kaupa föt á netinu, þótt sæðisgjafavalið virki þannig.

„Þetta getur verið mjög flókið og erfitt fyrir konur, hvort sem þær eru einar eða í sambandi,“ segir Kristín.

„Sumar ganga inn og eins og Silja sagði, blúbb blúbb, en aðrar eyða mörgum árum og milljónum í tæknisæðingu eða glasafrjóvgun og lenda í alls konar veseni með sýkingu, endómetríósu, nefndu það.“

Svo þarf allt að smella saman á rétta deginum; telja dagana í tíðahringnum og mæta akkúrat á settum degi. „Jólafrí og sumarfrí geta svo sett allt úr skorðum,“ segir Inga Sif.

Skrifstofutímar hafa sömuleiðis áhrif á ferlið. Engin börn sem getin hafa verið með tækni- eða glasafrjóvgun hafa fæðst í apríl. Það vegna þess að Livio er lokað í júlí. Öll börn getin með þessum hætti sem fæðast í apríl fæddust annað hvort of snemma eða of seint. n

Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um Einstakar mæður á vefsíðu þeirra eða Facebook síðu þeirra.

Athugasemdir