Engar fastar lokanir verða á götum vegna komu Indlandsforseta til landsins eins og var við heimsókn Mike Pence fyrr í vikunni. Hann fær þó lögreglufylgd hvert sem hann fer, líkt og Angela Merkel og aðrir þjóðhöfðingjar sem heimsækja landið, með tilheyrandi truflunum á umferð. Óvenju mikið hefur verið um opinberar heimsóknir upp á síðkastið og mikið að gera hjá umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

„Þetta verður náttúrulega ekkert í líkingu við Pence en þetta verður svona meira í áttina að Merkel,“ segir Guðbrandur Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn umferðardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við Fréttablaðið, spurður út í viðbúnað vegna heimsóknar forseta Indlands. „Það verða umferðarfylgdir á öllum ferðum hans og þar af leiðandi truflun á umferð svona rétt á meðan fylgdin er að fara í gegn en svo opnast allt aftur.“

Shri Ram Nath Kovind, forseti Indlands, kemur í opinbera heimsókn til landsins á morgun eins og greint hefur verið frá. Hann mun hitta Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, á Bessastöðum á þriðjudag og að því loknu halda opinn fyrirlestur í Háskóla Íslands, sem ber yfirskriftina Indland og Ísland fyrir græna plánetu.

Annasamur ágústmánuður

Guðbrandur segir að mikið hafi verið að gera hjá lögreglunni vegna opinberra heimsókna í sumar. „Oft hefur nú verið mikið um opinberar heimsóknir. En það er svona misjafnt eftir sumrum og hvort það hafi nýlega verið kosningar eða ekki,“ segir hann. Hann útskýrir þannig að fyrst eftir kosningar sé oft minna um opinberar heimsóknir til landsins. Það sé oft ekki fyrr en íslenskir ráðamenn hafi sjálfir farið út og boðið erlendum ráðamönnum hingað til landsins í kjölfarið sem að heimsóknunum fjölgar.

„Þannig það er búið að vera talsvert í sumar og það sem hefur kannski bæst inn í er að það er búið að vera gríðarlega mikið að gera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu,“ heldur hann áfram og telur upp helstu viðburðina í ágústmánuði. Þannig þurfti lögreglan að huga að verslunarmannahelginni, hinsegin dögum, tónleikum Ed Sheeran, Norðurlandaþingi forsætisráðherra Norðurlandanna, heimsókn Merkel, heimsókn Pence og nú heimsókn forseta Indlands.

Eins og greint var frá í vikunni var viðbúnaður vegna heimsóknar Pence afar mikill. Það er að sögn Guðbrands ekki algengt við svona heimsóknir og segir að hann verði alls ekki svo mikill við komu Shri Ram á morgun. „Eins og þetta liggur fyrir núna er þetta bara frekar lágreist.“