„Það eru engar grun­semdir um neitt refsi­vert at­hæfi,“ segir Skúli Jóns­son, að­stoðar­yfir­lög­reglu­þjónn í Hafnar­firði, vegna elds­voðans í Dals­hrauni í Hafnar­firði.

Greint var frá því fyrr í kvöld að tveir væru í haldi lög­reglu vegna málsins en Skúli segir í sam­tali við Frétta­blaðið að svo hafi ekki verið. „Það hefur greini­lega verið ein­hver mis­skilningur.“

Karl­maður sem býr húsinu og fann fyrir reyknum hafi verið fenginn í skýrslu­töku, en einungis sem vitni í málinu. Skýrslu­töku hafi lokið um klukkan sjö.

Búið er að slökkva eldinn en slökkvi­liðið er að leggja loka­hönd á sitt starf á vett­vangi. Svæðið verður vaktað í kvöld og nótt og er ljóst að enginn er að fara að gista þar að sögn Skúla.

Rauði krossinn hefur út­vegað í­búum hússins gistingu vegna elds­voðans en alls voru um 20 manns í húsinu þegar í því kviknaði. Her­bergin þar eru 25 og í­búarnir í kringum 50.

Tækni­deild lög­reglunnar mun hefja rann­sókn í fyrra­málið en ó­tíma­bært er að segja til um or­sök elds­voðans að svo stöddu.