Heilbrigðisyfirvöld hafa ákveðið að endurvekja nú bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar í ljósi þess hvernig kórónaveirufaraldurinn hefur þróast hér á landi síðustu daga en þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu.

Líkt og áður hefur komið fram er faraldurinn á uppleið hér á landi en síðustu þrjá daga hafa 143 innanlandssmit verið greind og eru tveir nú á sjúkrahúsiþ

Þá hefur Landspítalinn meðal annars verið færður af óvissustigi yfir á hættustig en upp hafa komið tvö smit meðal starfsfólks spítalans og þurfa því fleiri að fara í sóttkví, sem kann að hafa áhrif á starfsemi spítalans.

Leita að fólki til að koma tímabundið til starfa

Bakvarðasveitin var sett á fót í upphafi faraldursins til að bregðast við mönnunarvanda heilbrigðisstofnunar en leitað er nú að fólki til að koma tímabundið til starfa í heilbrigðisþjónustunni með skömmum fyrirvara.

Að því er kemur fram í tilkynningunni hefur heilbrigðisráðuneytið útbúið rafrænt skráningarform fyrir bakvarðasveitina en þar gefst fólki kostur á að skrá sig í tímavinnu, fullt starf eða hlutastarf í allt að tvo mánuði.

Opinberar heilbrigðisstofnanir sem óska eftir að ráða einstaklinga úr bakvarðasveitinni geta nálgast upplýsingar um þá sem hafa skráð sig hjá heilbrigðisráðuneytinu en stofnanir munu hafa beint samband við bakverði.

Hér fyrir neðan má sjá svör við helstu spurningum um bakvarðasveitina.

Spurt og svarað um bakvarðasveitina

Eftir hverjum er óskað í bakvarðasveitina?

Heilbrigðisstarfsfólki úr hópi þeirra löggiltu heilbrigðisstétta sem taldar eru undir lið 6 í skráningarforminu hér að neðan.

Til hve langs tíma?

Leitað er að fólki sem getur skuldbundið sig tímabundið í allt að tvo mánuði, hvort sem um er að ræða fullt starf, hlutastarf eða tímavinnu.

Hver eru launin?

Laun taka mið af kjarasamningi viðkomandi stéttarfélags á viðkomandi stofnun.

Hver eru réttindi þeirra sem ráða sig til starfa?

Orlofsréttindi verða greidd jafnóðum. Veikindaréttur starfsfólks sem ráðið er í tímavinnu eða skemur en tvo mánuði er í samræmi við ákvæði kjarasamninga við ríkið.  

Hvar skráir fólk sig í  bakvarðasveitina?

Heilbrigðisráðuneytið hefur útbúið rafrænt skráningarform í þessu skyni, vinsamlegast smellið á tengilinn.

Hvernig verður staðið að ráðningunni?

Þær heilbrigðisstofnanir sem óska eftir að ráða sér liðsauka úr bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar geta nálgast lista með upplýsingum um þá sem hafa skráð sig til þátttöku hjá heilbrigðisráðuneytinu. Stofnanirnar munu sjálfar hafa beint samband við bakverði og verður ráðningarsambandið á milli viðkomandi stofnunar og þess/þeirra bakvarða sem ráða sig til starfa.