Ríkissaksóknari hefur ákveðið að rannsókn á fyrrum sambýlismanni Lindu Gunnarsdóttur, sem hún kærði í fyrra vegna líkamsárásar meðan þau voru í sambandi, skuli hefjast á ný.

Þannig hefur ríkissaksóknari fellt úr gildi ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá því í febrúar um að hætta rannsókn á málinu .

Fjallað var um málið í Fréttablaðinu um helgina þar sem Linda greindi frá því að hún hefði verið í sambandi með umræddum manni í um tvö ár þar sem hann beitti hana andlegu og líkamlegu ofbeldi.

Linda segir niðurstöðuna vera jákvæða en að hún sé aðeins eitt skref af mörgum í rétta átt. „Fyrir þolanda, að þurfa að ganga í gegnum allt þetta ferli, finnst mér sláandi, sú ákvörðun ein og sér að kæra er nógu erfið,“ segir Linda.

Atvikið sem Linda kærði til lögreglu er frá árinu 2015. Hún sagði þáverandi sambýlismann sinn hafa ráðist á sig. Er hann hafi komið heim eftir að hafa verið úti að skemmta sér hafi hún komist að því að hann hafi haldið framhjá henni. Hún hafi vakið hann morguninn eftir, slitið sambandinu, og rekið hann út.

Linda segir hann hafa í kjölfarið kýlt og slegið hana ítrekað og hrint henni í gólfið svo hún þurfti að leita á bráðamóttöku.

Linda segir niðurstöðuna vera jákvæða en að hún sé aðeins eitt skref af mörgum í rétta átt.
Fréttablaðið/Ernir

Samkvæmt áverkavottorði undirrituðu af sérfræðilækni á bráða- og göngudeild Landspítala voru áverkarnir á líkama Lindu átta talsins, þar á meðal viðbeinsbrot. Hún kærði manninn í fyrra, fimm árum eftir árásina, en hún sagðist ekki hafa áttað sig almennilega á hverju hún hefði orðið fyrir, fyrr en hún fór að opna á málið.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu ákvað síðan síðastliðinn febrúar að hætta rannsókn málsins, með þeim rökum að í málinu stæðu orð gegn orði og langt væri liðið frá atvikinu. Þá hafi maðurinn neitað sök en hann hélt því fram í skýrslutöku að hún hefði ráðist á sig og dottið.

Linda kærði ákvörðun lögreglustjórans í kjölfarið og í gær fékk hún loks þau svör að sú ákvörðun hafi verið felld niður og því muni rannsóknin halda áfram.

„Eftir yfirferð gagna málsins telur ríkissaksóknari rannsókn þess ekki lokið,“ segir í rökstuðningi um afstöðu ríkissaksóknara til kærunnar og er lagt fyrir lögreglustjóra að „taka málið til rannsóknar og þóknanlegrar meðferðar.“

Vísað var til þess að lögregla hafi ekki óskað eftir myndum af áverkum Lindu, þrátt fyrir að þess væri skýrt getið í áverkavottorði að lögregla þyrfti aðeins að óska eftir þeim, og að vitni sem hún tilgreindi, þar á meðal vinkona Lindu sem ók henni á bráðamóttöku, voru ekki kölluð til.

„Þessari niðurstöðu ríkissaksóknara tek ég fagnandi og fæ aftur trú á réttlætinu, en núna er það í höndum lögreglunnar að rannsaka þetta mál aftur og þá með öllum göngum og vitnum málsins,“ segir Linda.