Héraðsdómur Suðurlands sýknaði á miðvikudag Hreggvið Hermannsson af því að hafa lokað aðkeyrslu sinni með vír. Hreggviður, sem er ábúandi á Langholti 1 í Flóahreppi, hefur staðið í deilum við nágranna sína um nokkurra ára skeið.

Samkvæmt skýrslum lögreglunnar hefur lögreglan í 22 skipti haft afskipti af lokunum Hreggviðs, milli 13. desember árið 2017 og 29. janúar ári seinna, en hann segist hafa lokað veginum í að minnsta kosti tífalt fleiri skipti og að heimsóknir lögreglu telji vel á fjórða hundrað.

Hreggviður kom fyrir stórum steinum beggja vegna við veginn, boraði króka inn í þá og strengdi vírinn á milli. Hann hefur deilt við nágranna sína, Fríði Sólveigu Hannesardóttur og Ragnar Val Björgvinsson, um ákveðna landspildu.

Fríður vitnaði um að í hvert skipti sem veginum var lokað hefði hún kallað til lögreglu. Hreggviður vitnaði um að hann hefði ávallt merkt lokunina með glitmerkjum eða veifum.

Lögfræðingur Vegagerðarinnar bar vitni fyrir dómnum og staðfesti bréf þess efnis að vegurinn væri ekki á skrá. Á þeim grundvelli var Hreggviður sýknaður. Á sama tíma voru tekin fyrir önnur mál á hendur Hreggviði. Var hann sýknaður af því að hafa tekið samlokusíma af Fríði með þeim afleiðingum að hún marðist á fingri en þá var hann handtekinn og látinn dúsa inni í 8 klukkutíma.

Mun áfrýja þá ákæruliði sem hann var sakfelldur af

Hreggviður var hins vegar sakfelldur fyrir að hafa keyrt niður tvo girðingarstaura og grafið upp plaströr sem til stóð að setja rafmagnskapla í og fyrir umferðarlagabrot. Var Hreggviður samanlagt dæmdur til þess að greiða 100 þúsund króna sekt, tæplega 147 þúsund með vöxtum í bætur og 2 milljónir af launum lögmanna.

„Ég er mjög sáttur við þann hluta dómsins sem ég var sýknaður af,“ segir Hreggviður. „Hinum ákæruliðunum verður áfrýjað.“ Hann segist ekki eiga von á því að fá afsökunarbeiðni frá lögreglunni þrátt fyrir öll þessi tilhæfulausu afskipti.Þessi málabunki er ekki einu mál Langholtsfólks á undanförnum árum.

Árið 2018 var Hreggviður dæmdur í mánaðarfangelsi fyrir að snúa upp á handlegg Fríðar og þjófnaði á sófa og staurum. Ragnar Valur var dæmdur í hálfs árs skilorðsbundið fangelsi árið 2019 fyrir að keyra á Hreggvið.

Lögreglustjórinn á Suðurlandi hefur áður verið úrskurðaður vanhæfur í málum tengdum Langholti vegna tengsla starfsfólks ákærusviðs, og var það því Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum sem lagði fram ákærurnar sem dæmt var í í síðustu viku.

Hreggviður segist ekki hafa sett vírinn upp aftur, umferðin hafi minnkað það mikið og róast milli bæjanna.„Ég á frekar von á því að það verði rólegheit á næstunni, að minnsta kosti þangað til vorar og ég fer að laga girðingar,“ segir Hreggviður.