Karl Gauti Hjalta­son, fram­bjóðandi Mið­flokksins í Suð­vestur­kjör­dæmi, telur endur­talningu í Norð­vestur­kjör­dæmi mark­lausa.

Hann krefst þess að niður­stöður úr fyrstu talningu verði látnar gilda, að því er fram kemur í Facebook-færslu hans.

Í færslu sinni telur Karl Gauti, sem er fyrr­verandi sýslu­maður, upp þrjá hluti sem hann segir brot á kosninga­lögum.

Í fyrsta lagi hafi geymsla at­kvæða í kjör­dæminu verið í bága við skýr á­kvæði kosninga­laga. Vísar hann til þess að at­kvæðin hafi verið skilin eftir í ó­inn­sigluð í hótel­sal í nokkrar klukku­stundir.

Í öðru lagi hafi um­boðs­mönnum ekki verið til­kynnt um endur­talningu og þeir því ekki við­staddir, það sé í bága við kosninga­lög.

Í þriðja og síðasta lagi segir hann úr­skurði á at­kvæðum sem breyttust hafi allt verið gert án um­boðs­manna og sé skýrt brot. Í 103. gr. kosninga­laga sé kveðið á um að at­kvæði eigi að úr­skurða jafn­óðum í talningu til að koma í veg fyrir ó­þægi­lega að­stöðu.

Frétta­blaðið greindi frá því fyrr í vikunni að Karl Gauti hefði kært endur­talningu at­kvæða og með­ferð á þeim til lög­reglu.

Karl Gauti var inni sem jöfnunar­þing­maður í Suð­vestur­kjör­dæmi þar til að endur­talning átti sér stað í Norð­vestur­kjör­dæmi.

Endur­talning hafði því bein á­hrif á hann sem jöfnunar­þing­mann með þeim af­leiðingum að hann datt út og Berg­þór Óla­son kom inn fyrir Mið­flokkinn í Norð­vestur­kjör­dæmi.

Karl Gauti hefur óskað eftir því að at­burða­rásin verði upp­lýst af lög­reglu.

Í bréfi Karls Gauta til lög­reglunnar sem var einnig sent á lands­kjör­stjórn, krefst hann þess að Ingi Tryggva­son for­maður yfir­kjör­stjórnar í Norð­vestur­kjör­dæmi, víki úr sæti á meðan beiðnin er tekn fyrir.