Um það bil tíu þúsund skammtar hafa nú verið gefnir af bóluefni Pfizer og BioNTech en áætlað er að 50 þúsund skammtar af bóluefni Pfizer og 10 þúsund skammtar af bóluefni Moderna komi til landsins fyrir lok mars. Þá er bóluefni AstraZeneca til umræðu hjá Lyfjastofnun Evrópu.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir greindi frá því á upplýsingafundi almannavarna í dag að í ljósi fárra skammta á fyrstu þremur mánuðum ársins hafi hann neyðst til að endurskoða forgangsröðun bólusetninga.

„Ástæða þessarar endurskoðunar er að ég tel mikilvægt að bólusetja í fyrstu atrennu framlínustarfsmenn heilbrigðisþjónustunnar sem eru í mestri áhættu að smitast af COVID-19 og svo þá einstaklinga sem eru í mestri áhættu að fá alvarlegar afleiðingar sýkingarinnar,“ sagði Þórólfur.

Einstaklingar yfir 70 ára aldri í forgangi

Að sögn Þórólfs eru einstaklingar yfir 70 ára aldri og einstaklingar með undirliggjandi sjúkdóma í mestri áhættu en samkvæmt reglugerðinni eru einstaklingar yfir 60 ára aldri í sjötta forgangshópi og fólk með undirliggjandi sjúkdóma í sjöunda forgangshópi.

Gert er ráð fyrir að hægt sé að klára að bólusetja framlínustarfsfólk með næstu sendingu af bóluefni Pfizer og í kjölfarið verður farið í að bólusetja alla yfir 70 ára aldri, alls um 34 þúsund manns. Í framhaldinu verða einstaklingar undir 70 ára aldri með undirliggjandi sjúkdóma bólusettir.

„Það er ólíklegt að það verði hægt að byrja á því fyrr en eftir marsmánuð, miðað við þá dreifingar áætlun sem sem nú liggur fyrir,“ sagði Þórólfur þó á fundinum „Samhliða því verður farið í að bólusetja aðra hópa í samræmi við það magn bóluefnis sem við höfum hverju sinni.“

Líkt og áður hefur verið greint frá munu allir einstaklingar 16 ára og eldri fá boð í bólusetningu þegar að því kemur en ekki er hægt að panta sérstaklega bólusetningu að svo stöddu. Bólusetningin verður gjaldfrjáls, líkt og kemur fram í reglugerð heilbrigðisráðuneytisins.

Faraldurinn í vexti erlendis

Alls greindust ellefu einstaklingar með veiruna innanlands í gær en Þórólfur sagði að þrátt fyrir að um væri að ræða fjölgun milli daga þá væru það ekki merki um að faraldurinn væri í uppsveiflu hér á landi.

Þó væru sífellt fleiri smit að greinast á landamærunum og er nýgengi á landamærunum nú orðið hærra heldur en nýhengi innanlands. Að sögn Þórólfs er það til marks um uppsveiflu faraldursins erlendis þar sem gripið hefur til hertra takmarkana.

Þá ræddi hann nýtt afbrigði veirunnar sem varð fyrst vart í Bretlandi en alls hafa 22 einstaklingar smitast af því afbrigði veirunnar hér á landi. Ljóst sé að það afbrigði sé meira smitandi en ekkert bendi til að COVID-19 veikindi séu alvarlegri í kjölfar smits af því afbrigði.

Núverandi reglugerð um samkomutakmarkanir gildir til og með 12. janúar næstkomandi en Þórólfur vildi ekki tjá sig nánar um hvað gæti mögulega falist í tillögum hans.