Flugáhafnir Play og Icelandair undirgangast ekki reglulegar skimanir þrátt fyrir tíðar ferðir um landamærin. Þetta kemur fram í svörum flugfélagana við fyrirspurn Fréttablaðsins. Bæði vísa til undanþága í reglugerð um skimanir á landamærum.

„Áhafnir eru undanþegnar að framvísa neikvæðu PCR próf, nema ef farið er yfir 72 klst og staðan er ekki þannig hjá okkur ennþá, “ segir Nadine Guðrún Yaghi, upplýsingafulltrúi Play Air. Sama svar kom frá upplýsingafulltrúa Iceland air.

„Það er verið að skoða þetta. Ekki síst vegna stöðunnar eins og hún er, “ segir Hjördís Guðmundsdóttir samskiptastjóri almannavarna í svari við fyrirspurn um skimanir flugáhafna. Í fyrirspurn blaðsins var sérstaklega spurt um áhafnameðlimi sem fengu Janssen bóluefni, með tilliti til minni smitvarna. Hjördís svarar því til að skoðun málsins taki til flugáhafna almennt, ekki einungis þeirra sem fengu umrætt bóluefni.

Undanþága fyrir íslenskar áhafnir

Fjallað er um undanþáguna á vef landlæknis. Þar kemur fram að áhafnir flug­véla bú­settar á Ís­landi eða með aðal­bæki­stöð á Ís­landi, séu undan­þegnar að­gerðum í allt að 72 klukku­stunda vinnu­ferðum er­lendis, með því skilyrði að þær viðhafi sér­stakar var­úðar­ráð­stafanir í ferðum.

Um erlendar áhafnir sem hingað fljúga segir að sótt­varna­lækni sé heimilt að veita þeim áhöfnum sem dvelja á Ís­landi í tak­markaðan tíma, undanþágu frá því að fram­vísa nei­kvæðu PCR-prófi við komu til landsins.

Í gær tóku gildi reglur um hertar að­gerðir á landa­mærunum. Er ferðamönnum sem koma til landsins gert að fram­vísa nei­kvæðu CPR prófi sem ekki er eldra 72 klukku­stundir, þrátt fyrir að vera bólusett eða með stað­festingu um fyrra smit.