Hjalt­eyrar- og Vöggu­stofu­málin voru rædd á ríkis­stjórnar­fundi í morgun þar sem á­kveðið var að lög um sann­girnis­bætur verði endur­skoðuð til að málin geti fallið undir þau. Katrín Jakobs­dóttir, for­sætis­ráð­herra og Jón Gunnars­son, dóms­mála­ráð­herra, lögðu fram til­lögu þess efnis sem var sam­þykkt á fundinum.

„Með endur­skoðuninni verður tryggður réttur fyrrum vist­manna til að fá greiddar bætur vegna illrar með­ferðar eða of­beldis á meðan vistuninni stóð. Ekki mun fara fram rann­sókn á heimilinu á Hjalt­eyri en Reykja­víkur­borg hefur óskað eftir heimild stjórn­valda til þess að fram­kvæma skoðun á að­stæðum á vöggu­stofum borgarinnar,“ segir í til­kynningu frá dóms­mála­ráðu­neytinu.

Þar kemur einnig fram að brýnt sé að fylgja þeirri stefnu sem hefur verið mörkuð um fram­kvæmdina við greiðslu sann­girnis­bóta og ljúka þeirri veg­ferð sem lagt var upp með í upp­hafi.

„Mikil­vægt þykir að jafn­ræðis verði gætt við með­ferð þeirra mála sem hlotið hafa könnun vist­heimila­nefndar, þannig að ein­staklingar sem bjuggu við sam­bæri­legar að­stæður geti leitað úr­lausnar sinna mála með ein­földum og skil­virkum hætti.“

Ekki þörf á rann­sókn

Jón Gunnars­son, dóms­mála­ráð­herra, skipaði starfs­hóp í desember á síðasta ári með því mark­miði að afla nauð­syn­legra gagna og upp­lýsinga um starf­semi vist­heimilisins á Hjalt­eyri. Niður­staða starfs­hópsins var sú að hann skorti full­nægjandi laga­heimildir til að kanna starf­semi heimilisins og því yrði að lög­festa heimildir til handa starfs­hópnum ef ætlunin væri að rann­saka að­stæður með ítar­legum hætti.

Ráðu­neytið telur að nægi­leg vit­neskja liggi fyrir um eðli og starf­semi stofnana og heimila þar sem börn voru vistuð og hvað fór al­mennt úr­skeiðis eða hefði betur mátti fara. Var því á­kveðið að gera ekki sér­staka rann­sókn á vist­heimilinu á Hjalt­eyri heldur verði sann­girnis­bætur greiddar út án frekari könnunar á vist­heimilinu.

Borgin rann­saki vöggu­stofur

Reykja­víkur­borg hefur á­kveðið að skipa sjálf­stæða rann­sóknar­nefnd til að gera út­tekt á starf­semi vöggu­stofa sem reknar voru af hálfu Reykja­víkur­borgar á síðustu öld. Hlut­verk nefndarinnar verður meðal annars að gera nánari grein fyrir á­stæðum þess að vöggu­stofurnar voru settar á fót og hvað varð um börnin sem sem þar voru vistuð. For­sætis­ráð­herra lagði fram frum­varp þess efnis í byrjun mánaðar sem er nú til með­ferðar á þingi.

„Endur­skoðun á lögum um sann­girnis­bætur mun taka til greiðslu mögu­legra bóta vegna vöggu­stofanna sem leitt gæti af rann­sókn borgarinnar,“ segir í til­kynningu dóms­mála­ráðu­neytisins.