Það eru alls konar skoðanir uppi þegar kemur að þessum saumaskap. Ein kona sagði: Ég sauma ekki mann sem hefur drepið annan mann, en það er dálítið erfitt þegar um tíma Íslendingasagna er að ræða,“ segir Jóhanna Erla Pálmadóttir, bóndi og handavinnukennari, brosandi þar sem hún situr við hið mikilfenglega útsaumsverk Vatnsdalsrefilinn. Við erum stödd í Textílmiðstöð Íslands á Blönduósi þar sem Jóhanna er verkefnastjóri. Heimur Vatnsdælasögu er að verða til í myndum, fyrir hennar atbeina, og hún leiðir okkur Anton ljósmyndara fúslega inn í þann heim.

„Vatnsdælasaga gerist á árunum frá 840 til 1030. Hér er skip Ingimundar gamla og Vigdísar konu hans að koma að ströndum Íslands. Fólkið er sjóveikt en okkur gekk mjög illa að fá einhvern til að sauma æluna! Á Borðeyri í Hrútafirði sér Ingimundur nýrekið viðarborð og nefnir eyrina eftir því. Síðar koma þau hjón að Vatnsdalshólunum þar sem Vigdís segir: Hér mun eg eiga dvöl nokkra því eg kenni mér sóttar. Þá segir Ingimundur eins og góðir menn gera: Verdi þat að góðu – og hún fæðir Þórdísi, fyrsta innfædda Húnvetninginn.“

Fyrsta veturinn kemur Ingimundur að vatni, samkvæmt sögunni. Svo skemmtilega vill til að á bökkum þess er Jóhanna fædd og uppalin og býr þar enn á bænum Akri sem stendur við Húnavatn. „Þar fann Ingimundur ísbirnu með tvo húna og af því leiðir að við erum enn Húnvetningar! Faðir minn, Pálmi Jónsson, sem ég stríddi stundum á að kynni betur Vatnsdælu en sína eigin fjölskyldusögu, vildi meina að birnan hefði trúlega verið drepin, því þær eru svo grimmar þegar þær hafa húna að verja. En Ingimundur fór með húnana heim og geymdi þá,“ segir hún og heldur áfram leiðsögninni: „Hér er Sauðadalurinn, lítill dalur milli Vatnsdals og Svínadals, Ingimundur týndi sauðum sínum og þeir fundust í þessum litla dal. Síðan týndust svínin líka, þessi göltur sem var gamall og lífsreyndur og hafði verið á skipinu að utan, svam yfir vatn sem nú heitir Svínavatn. Þannig að örnefnin í landinu okkar eru hér á þessum fyrstu metrum refilsins, við köllum hann líka örnefnakaflann. Svo voru bæjarheitin eftir annaðhvort búskaparháttum eða körlunum sem bjuggu þar og þau notum við enn í dag.“

Ingimundur gamli og hans fólk gaf kennileitum nöfn sem enn eru í gildi, svo sem Borðeyri og Víðidalur.

Verkið næstum hálfnað

Jóhanna útskrifaðist frá Håndarbejdets Fremmes Seminarium í Kaupmannahöfn 1988. Hún hlaut fálkaorðuna 17. júní á nýliðnu ári fyrir störf í þágu safna og menningar í heimabyggð. Vatnsdalsrefillinn er hennar hugmynd og eign en teikningarnar eru gerðar af annars árs nemendum arkitekta- og hönnunardeildar Listaháskóla Íslands árið 2011, undir stjórn Kristínar Rögnu Gunnarsdóttur myndlistarkonu. Samhliða því sem nemarnir teiknuðu kveðst Jóhanna hafa verið að sauma alls konar teikningar sem þeir sendu henni til að átta sig á hversu smáar teikningarnar máttu vera fyrir refilsaumsporin sem einkenna verkið.

Nú er búið að sauma um 22 metra af reflinum af 46. Nálin stendur í mynd af Hofi í Vatnsdal þegar við erum á ferð. Jóhanna heldur áfram sögunni: „Í síðustu ferð Ingimundar til Noregs fer hann með þrjá ísbirni og gefur þá Haraldi hárfagra, vini sínum – ísbirnir þóttu konunglegar gjafir. Í staðinn fær hann tvö skip, Haraldur bað hann að velja en Ingimundur var svo snjall pólitíkus að hann bað konuginn að velja fyrir sig, hann valdi skipið Stíganda og annað til og fyllti þau af viði. Stígandanafnið er enn til á gömlu trésmíðaverkstæði hér á Blönduósi. Svo dvaldi Ingimundur eitt ár í Noregi og þegar hann kom heim var hann orðinn gamall maður og kallaður Ingimundur gamli eftir það.

Næst gerist það að fyrsta skrásetta veiðideila Íslandssögunnar fer fram þegar Ingimundarsynir reyna að aftra því að hinn ódæli Hrolleifur veiði í Vatnsdalsá. Sú deila endar með því að Hrolleifur drepur Ingimund gamla. Það gerðist upp úr árinu 900 en við Húnvetningar erum ekki enn búnir að fyrirgefa Hrolleifi það óhæfuverk.“

Ingimundur í rauðri skikkju

Kaflarnir í Vatnsdælu eru 47 en nemendurnir sem teiknuðu refilinn voru 22, að sögn Jóhönnu. „Kristín Ragna skipti köflunum niður í 22 þætti, setti þá í hatt og lét nemendurna draga, sumir fengu samliggjandi einn, tvo eða þrjá kafla, enginn gat ráðið hvaða kafla hann fékk en þurfti að taka tillit til þess sem á undan fór og þess sem á eftir gerðist. Auðvitað eru teikningarnar breytilegar því teiknararnir fengu að halda eigin stíl. Ingimundur er því ekki alltaf eins á reflinum, en hann þekkist alltaf á rauðu skikkjunni sinni. Hrolleifur hefur sérstök einkenni líka, svo og mamma hans með allar sínar vörtur. Nemendurnir stúderuðu mikið veiðiskap í þeim gögnum sem þeir gátu fengið. Svo eru alls konar tákn í reflinum. Hrafnarnir birtast þegar einhver er drepinn, eða slíkt er yfirvofandi. Burstir með fléttumynstri sýna kaflaskil og bjálkar tákna greinskil. Þrjár frostrósir þýða þrír vetur.“

Minne De Lange ætlar að sauma 100 korselett á dúkkur og er búinn með 65. Hann selur þau á netinu. Fréttablaðið/Anton Brink

Samfélagsverkefni

Fyrirmyndin að Vatnsdalsreflinum er hinn þýski 70 metra Bayeux-refill, að sögn Jóhönnu. „Bayeux-refillinn fjallar um árás Vilhjálms sigursæla á England 1066, sá refill var vígður með dómkirkjunni í Bayeux árið 1077. Þessi ellefu ár fóru í að spinna allt garnið og lita og væntanlega vefa dúkinn og sauma í hann, þannig að þar hefur verið haldið vel áfram en ég hugsa að fólkið hafi ekki haft há laun í þá daga. Sá refill er til enn og hefur lifað af margar styrjaldir, oft hefur átt að eyðileggja hann en alltaf var til gott fólk sem bjargaði honum. Einu sinni átti að klippa hann niður og nota í yfirbreiðslur yfir stríðsvagna, í annað skiptið sem segl. Hitler langaði óskaplega mikið í hann. Refillinn var þá kominn til Parísar og var falinn í Louvre-safninu, einhverjir þrír vissu af honum, þar sem hann var læstur í einhverjum kimum, þetta var í stríðslok og hann fór aldrei frá Frakklandi.“

Margir hafa hjálpast að við að sauma Vatnsdalsrefilinn, vinnustofan er opin á sumrin og opnuð fyrir hópa, samkvæmt samkomulagi á öðrum tímum. Jóhanna hefur umsjón með verkinu en kveðst eiga góðar hjálparhellur sem hlaupi undir bagga ef hún geti ekki verið á staðnum. „Hugmynd mín var að leyfa fólki að taka þátt í endursögn á sögunni um leið og það viðhéldi þessum gamla útsaumi sem oft er kallaður gamli íslenski saumurinn. Hann er úr stórri grúppu útsaumsaðferða en einangraðist hér á landi á miðöldum og var mikið notaður í kirkjuklæðum. Ég sé um að yfirfæra mynstrin, tek eina teikningu í einu sem er allt upp í sex metrar hver. En það koma fjórir nemendur núna í janúar frá dönskum textílskóla í Danmörku, þeir munu yfirfæra næstu mynd. Þetta er samfélagsverkefni og þannig sá ég það fyrir mér. Kannski er það kennarablóðið sem þar spilar inn í. Mitt sérsvið er útsaumur og ég gæti saumað refilinn ein en ég er alltof félagslynd til þess.

Það var kona í Frakklandi sem saumaði 58 metra langan refil á sextán árum og hún saumaði í þrjá klukkutíma á hverjum einasta degi í sextán ár. Ég held ég mundi ekki nenna því. Hún var algerlega einangruð, þeir sem komu að skoða verkið máttu sjá hana í fjarska. Það ætti ekki við mig! Trúlega hef ég samt saumað mest af þessum refli og svo samstarfskonur mínar en danskir nemendur eru líka drjúgir. Hann er þekktur í Danmörku þessi refill og Danir eiga örugglega fimm prósent af honum.“

Vefnaður og útsaumur í Minjastofu Kvennaskólans.

Bandið sem notað er til útsaumsins er íslensk lambsull sem var sérvalin í Ullarþvottastöðinni, að sögn Jóhönnu. „Mest af ullinni kemur úr Eyjafirðinum og við Kristín Helga völdum litina, þeir eru samkvæmt útsaumspakkningu frá Bayeux, því lok Vatnsdælasögu eru um 1030, nánast á sama tíma og Bayeux-refillinn er gerður. Það veit reyndar enginn í dag hvernig litirnir í honum voru upphaflega, því auðvitað hafa þeir fölnað, en þetta er það sem fólk getur sér til um. Fyrst Bayeux-refillinn hefur varðveist í aldir hlýtur Vatnsdalsrefillinn að gera það líka. Hugmynd mín er sú að þegar hann verður tilbúinn verði hann hengdur upp við Þingeyrarkirkju, trúlega verður að byggja sérstakt hús, þar mega ekki vera gluggar, heldur ákveðin lýsing og ákveðið rakastig. Á Þingeyrum var fyrsta munkaklaustur landsins reist árið 1133 og rekið til siðaskipta og árið 1270 er talið að Vatnsdælasaga hafi verið skrifuð þar. Fyrir mér væri það eins og að koma Vatnsdælu heim aftur sem þakklæti fyrir uppfóstran mína og fjölskyldu minnar í héraðinu.“

Í Minjastofu Kvennaskólans

Nú kveðjum við Vatnsdalsrefilinn og höldum upp á loft, eftir viðartröppum með sterkum vígindum. Á göngum efri hæðar hanga skólaspjöld með myndum af námsmeyjum Kvennaskólans og fleira minnir á upphaflegan tilgang hússins. Í Minjastofunni eru sýnishorn af fatnaði, útsaumi og vefnaði, myndir úr eldhúsi og munir sem tilheyrðu bók- og tónlistarnámi, allt minnir það á aðalnámsgreinar skólans. Mynd af Birni Sigfússyni (1849-1932) á Kornsá hangir uppi, hann var hugmyndasmiður að skólanum, að sögn Jóhönnu. „Björn fékk hugmyndina vegna þess að móðir hans kunni að lesa en ekki skrifa. Hann sagði: „Allar dætur mínar skulu læra að skrifa.“ Skólinn var fyrst á tveimur stöðum í Vatnsdal, Undirfelli og Lækjarmóti, áður en hann fór að Ytri-Ey, milli Skagastrandar og Blönduóss, en síðan var byggður stór skóli hér 1901. Hann brann í febrúar 1911 og í október 1912 var byrjað að kenna í þessu húsi, þannig að það hefur verið tekið á því. Þá bjuggu flestir enn í torfbæjum en það þótti mikið framfaramál að stúlkur fengju menntun og allir lögðust á árar,“ lýsir Jóhanna og heldur áfram: „Félagsskapur sem heitir Vinir kvennaskólans sér um eigur hans og á þeirra vegum er Iðunn Vignisdóttir sagnfræðingur að skrifa sögu skólans, því hann var mikil menningarstofnun.“

Í einni stofunni eru mublur Elínar Rannveigar Eggertsdóttur Briem sem var fjórum sinnum skólastjóri Kvennaskólans, síðast 1915. Til eru myndir af þessum húsgögnum frá því upp úr 1900 í stofu Elínar á Sauðárkróki, að sögn Jóhönnu. „Elín giftist ekki en ól upp systurson sinn og afkomendur hans, sem bjuggu í Þýskalandi, buðu fram mublurnar hennar, létu gera þær upp og flytja á sinn kostnað hingað heim að dyrum.“

Húsbúnaður Elínar Briem, gefinn af erfingjum, er í sérstakri stofu.

Dúkkuföt af fínni gerðinni

Við erum komin í listamiðstöðina, þar er oft fremur fámennt í desember, að sögn Jóhönnu, og þannig er það nú, hinn hollenski leikbúningahönnuður Minne De Lange hefur dvalið í tvo mánuði og situr við að sauma og prjóna afar fínleg dúkkuföt. Hann prjónar á prjóna númer eitt og þráðurinn er fínni en tvinni. 100 korselett eru á verkefnaskránni, sum með skjörtum, 65 eru tilbúin. „Þetta er söfnunarvara, rándýr. Fólk sem á haug af peningum safnar dúkkum sem þessi föt passa á og Lange hefur ekki undan að framleiða og selja á netinu gegnum heimasíðu sína,“ segir Jóhanna. „Þetta er í þriðja skipti sem hann kemur – margir koma aftur og aftur því þeim líður vel hér. Þýsk veflistakona kemur til dæmis nú á nýju ári, hún er held ég að koma í sjötta sinn. Við erum afar heppin með fólk. Höfum til dæmis verið með marga flotta prófessora, sérstaklega frá Bandaríkjunum, Kanada og Ástralíu. Ég hélt á tímabili að Ástralía hlyti að vera bara hérna hinum megin við ána!“

Í vefstofunni situr listakonan Angie To, við einn stólinn, hún skýtur skyttunni fimlega milli skila og slær vefinn þess á milli. Nýjasti vefstóllinn sem er stafrænn er þó ekki í þessari stofu, í hann fer enginn nema að hafa fengið tilsögn hjá Ragnheiði Björk Þórsdóttur sem var að gefa út vefnaðarbók, hún er sú eina sem kann á hann til hlítar, að sögn Jóhönnu. „Þetta er eini stafræni stóllinn á landinu en við erum að reyna að fjármagna kaup á öðrum og erum komin hátt í hálfa leið. Við teljum svo mikilvægt að koma þessari stafrænu tækni inn í þekkinguna.

Einu sinni þótti málaralistin flottust en textíllistin neðst en unga fólkið sem kemur hingað lítur ekki á listina í einhverjum lögum. Fyrir því er sköpun listarinnar aðalatriðið og það notar þá aðferð sem því hentar best.“

Hér eru nokkur korselettanna eftir Lange.
Við einn af mörgum vefstólum hússins situr listakonan Angie To.
af
Lange notar prjóna númer eitt á sum dúkkufötin.