Málverk frá 13. öld, sem hafði verið týnt í fjölda ára eftir ítalska listmálarann Cimabue og fannst í síðasta mánuði upp á eldhúsvegg eldri konu í Frakklandi, varð í dag dýrasta málverk frá miðöldum sem selst hefur á uppboði. Málverkið seldist á 24 milljónir evra, eða á rúmlega 3,3 milljarða íslenskra króna.

Verkið sem um ræðir heitir „Kristur hæddur“ og er talið vera hluti af stærra verki Cimabues, sem var málað um árið 1280 og sýnir krossfestingu Jesú Krists í átta myndum. Tveir hlutar verksins hanga nú á listasöfnum; annar í London en hinn í New York. Hinir hlutar verksins voru allir taldir glataðir þar til þessi fannst í eldhúsi konunnar. Hún taldi að það væri einungis gamalt og ómerkilegt trúarmálverk áður en hún fór með það til listaverkasérfræðinga til að fá það metið.

Var metið á um 6 milljónir evra

Búist var við að verkið færi á um 6 milljónir evra og kom því mikið á óvart þegar verkið fór fyrir heilar 24. Það sló þannig nýtt met sem dýrasta málverk frá miðöldum sem selst hefur á uppboði en kaupandi þess vildi halda nafnleynd. Einungis er vitað að hann er frá norðurhluta Frakklands.

„Þegar svona einstætt verk eftir svo sjaldgæfan málara eins og Cimabue kemur á markað, þá verður maður að vera búinn undir eitthvað svona óvænt,“ sagði uppboðshaldarinn Dominique Le Coent í samtali við fréttastofu Reuters.

Listfræðingar segja verkið vel varðveitt en það var þó dálítið skítugt því það hékk yfir eldavél konunnar. Verkið er ekki stórt, eða 20 sentímetrar á eina hliðina en 26 á hina.

Frétt BBC um málið.