Flestir virðast hafa nokkuð brenglaðar hugmyndir um íslenskar fornsögur. Margir líta á þær sem hábókmenntir, illskiljanlegar og hátimbraðar frásagnir af ofbeldisfullum forfeðrum okkar við landnám. Þetta er þó misskilningur að sögn Ármanns Jakobssonar, prófessors í bókmenntum fyrri alda við Háskóla Íslands, sem reynir nú ásamt fyrrum nemanda sínum að rétta hlut sagnanna og ýmissa þekktra persóna þeirra í gegnum nýtt miðlunarform: hlaðvarpið Flimtan og fáryrði.

„Þetta er eiginlega gamall draumur minn, að vera með hlaðvarp,“ segir Ármann. „Ég er náttúrulega að komast á ákveðinn aldur. Í staðinn fyrir að kaupa mér mótorhjól og leðurjakka þá fer ég að gera hluti sem mig hefur dreymt um að gera lengi. Svo gerist það að Gunnlaugur er að vinna fyrir mig í öðru og mér finnst að ég eigi að nýta tækifærið til að hrinda þessu í framkvæmd. Hann er góður félagi í svona hlaðvarp,“ útskýrir hann. Verkefnið er nú styrkt af Háskóla Íslands.

Tíundu aldar Tina Fey

Form hlaðvarpsins er nokkuð frjálslegt og hentar það þeim Ármanni og Gunnlaugi Bjarnasyni vel, til að ná fram sínum áherslum í umfjöllun um fornsögurnar. Gunnlaugur spilar hlutverk nemandans sem spyr prófessorinn spjörunum úr – líka að heimskulegu spurningunum. „Sumir hafa nú sagt að ég spili mig dálítið vitlausan í þáttunum, en því er eiginlega öfugt farið. Ég veit í raun miklu minna en ég þykist vita,“ segir Gunnlaugur á léttum nótum, en hann er sjálfur menntaður íslenskufræðingur.

„Lykilatriðið er að þetta er allt í léttum dúr,“ segir Ármann. Hann mætir í hvern þátt með ákveðin áhersluatriði „en annars virkar þetta bara eins og kaffispjall. Það er eins og við höfum kannski hist í fermingarveislu og byrjað að ræða Íslendingasögurnar.“

„Eins og maður gerir iðulega í fermingarveislum,“ tekur Gunnlaugur undir með honum. „Hlaðvarpið er gott til að sýna það, að íslenskar fornbókmenntir eru ekki svona hátimbraðar eins og við viljum kannski ímynda okkur að þær séu. Þetta eru oft mjög fyndnar sögur og hlaðvarpið dregur það ágætlega fram.“

„Og þetta er allt samkvæmt minni hugmyndafræði um miðlun,“ segir Ármann þá. „Ég held að fólk muni best það sem það heyrir í svona léttu spjalli, en ekki það sem það les af glæru í skólastofu. Það fer inn og beint aftur út. Þetta þarf að vera í léttum dúr.“

Nafn hlaðvarpsins, Flimtan og fáryrði, vísar einmitt í þennan létta dúr og íkon þáttarins, Þórhildi skáldkonu. „Þórhildur skáldkona er svo ótrúlega merkileg persóna, því hún er einmitt fulltrúi hins létta dúrs! Hún er orðgífur og fer með flimtan. Það er eitthvað sem fólk hugsar ekki mikið um í tengslum við Íslendingasögur: skáldkonan sem er alltaf að segja brandara. Hún er svona Tina Fey síns tíma,“ segir Ármann glottandi.

Þórhildi bregður fyrir í Brennu-Njáls sögu í veislu heima hjá Gunnari á Hlíðarenda. Þar skilur eiginmaður hennar við hana í miðri veislu eftir að hún kveður til hans níðvísu og sakar hana um að fara með „flimtan og fáryrði“. Tilefni níðkveðskaparins gætu þó eflaust margir sagt ærið; eiginmanninum hafði verið starsýnt á fjórtán ára gamla stúlku allt kvöldið, sem hann endaði svo raunar á að giftast eftir skilnaðinn við Þórhildi.

„Með því að gera hana að okkar leiðarljósi þá erum við í raun og veru að endurreisa hinn létta dúr í Íslendingasögunum. Þær hafa kannski misst þetta Netflix-eðli sitt, sem þær höfðu alveg örugglega á sínum tíma. Sögurnar voru fyrst og fremst eitthvað sem að allir hámhorfðu, eða hámhlustuðu á, öllu heldur,“ útskýrir Ármann.

Frá salernisferðum til bræðrasambanda

Umfjöllunarefni þáttanna er því nokkuð óhefðbundið. Þeir félagar reyna að draga fram skemmtilega eða áhugaverða þætti í sögunum, sem gætu auðveldlega farið fram hjá hinum almenna lesanda. Hér er því ekki verið að ræða langþreyttar pælingar um það hver hafi skrifað hvaða sögu, eða hvort þær lýsi atburðum sem áttu sér stað í raunveruleikanum eða ekki.

„Við tölum meira um það sem nútímafræðimenn eru að ræða. Það geta verið alls konar hlutir, eins og áhrif stéttar eða kynferðis. Í síðasta þætti ræddum við til dæmis mun einkalífs og opinbers lífs á miðöldum,“ heldur Ármann áfram. Blaðamaður komst síðar að því, eftir að hafa hlustað á umræddan þátt, að Ármann eigi hér við salernisferðir miðaldamannsins og hvernig ýmsar djöfullegar verur gátu orðið á vegi hans á slíkum ferðum. Í öðrum þáttum er einnig rætt um bræðrasambönd, félagslegt hlutverk galdurs og kynlífshegðun í sögunum, svo eitthvað sé nefnt.

En eiga þáttastjórnendur sér uppáhaldsfornsögu?

Gunnlaugur er ekki lengi að hugsa sig um: „Króka-Refs saga,“ segir hann, handviss á sínu. „Hún er alveg gjörsamlega sturluð.“

Prófessorinn er ekki alveg jafn meðfærilegur í sínum svörum: „Bókmenntafræðingar eiga sér ekkert eftirlætisbókmenntir. Að eiga eftirlætis-eitthvað er bara fyrir þá sem njóta þess í frístundum. Um leið og maður er orðinn fagmaður, þá er þetta ekki lengur spurning um það.“

Eftir smá umræðu viðurkennir hann þó að auðvitað haldi hann upp á ákveðnar sögur, eða þyki sumar betri en aðrar. „Já, já, en fólk sér það bara þegar það kemur heim til manns og sér bókahillurnar. Alla jafna vil ég helst ekki tala um það.“

Streymisveitan Spotify er vettvangur Ármanns og Gunnlaugs. Þar má nálgast alla þá þætti sem komnir eru út af Flimtan og fáryrðum, en nýr þáttur kemur á hverjum mánudegi. Hlaðvarpið hyggjast þeir gefa út vikulega fram á haust og jafnvel til jóla, ef vel gengur.

Þar má því nálgast efni fornsagnanna á hinn upprunalega máta: í gegnum munnlegar frásagnir fróðra manna.