Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir breytingu á þingflokksformanni Samfylkingarinnar vera eðlileg endurstilling á leikskipulagi flokksins.
„Við höfum talað fyrir breyttum áherslum, þannig að þetta passaði vel við það í því samhengi,“ segir Kristrún í samtali við Fréttablaðið.
Logi Einarsson var í dag kjörinn sem þingflokksformaður Samfylkingarinnar en hann tók við af Helgu Völu Helgadóttur, sem gengt hafði stöðunni síðan kjörtímabilið hófst.
Kristrún segir Loga vera mjög hæfan til að sinna starfi þingflokksformanns. „Við erum með gríðarlega sterkan einstakling sem er að koma þarna úr fráfarandi formannssæti og mun sinna þessu starfi af prýði,“ segir Kristrún um Loga.
Logi er nýhættur sem formaður flokksins og hafði verið formaður síðan árið 2016. Logi er þingmaður Norðausturkjördæmis og tók Kristrún við af honum á landsfundi flokksins nýverið sem formaður.
Kristrún segir engin illindi vera á milli hennar og Helgu Völu. „Þetta hefur ekkert með persónulega leikendur að gera,“ segir hún og bætir við: „Helga Vala er gríðarlega öflugur þingmaður og verður áfram í forystu í þeim málaflokkum sem hún hefur verið sterkust í.“
„Það munu allir í þingflokknum hafa mjög mikilvægu hlutverki að gegna í því verkefni sem fram undan er,“ segir Kristrún.