Endurmönnun Isavia hefur gengið vel eftir faraldurinn. Talsmenn félagsins segjast ekki eiga von á að vandræði verði við taka á móti fyrirséðum farþegastraumi á Keflavíkurflugvelli í sumar.

„Við höfum ekki orðið vör við neinn marktækan mun á niðurfellingum flugferða,“ segir Grettir Gautason, staðgengill upplýsingafulltrúa Isavia.

Erlendis, einkum í Bretlandi og Bandaríkjunum, hefur gengið erfiðlega að ráða inn starfsfólk að nýju, eftir lægð faraldursins. Flugfélög þar hafa þurft að fella niður fjölmargar flugferðir nú um páskana vegna þessa.

Til dæmis hafa British Airways og EasyJet fellt niður um 70 ferðir. Grettir segir Ísland ekki glíma við þennan vanda.

„Okkur hefur gengið vel að manna í stöðurnar á ný og sumarvertíðin lítur vel út. Við búumst ekki við neinum hnökrum við að taka við ferðamannastraumnum í sumar,“ segir hann.

Hjá Isavia hafa starfað á bilinu 1.200 til 1.300 manns undanfarin ár en líkt og hjá öðrum flugþjónustum var fækkað verulega í faraldrinum. Félagið fór í stórar hópuppsagnir, til að mynda var 101 starfsmanni sagt upp í lok mars árið 2020 og 133 í lok ágúst.

Þegar mest lét var fækkun starfsfólks 40 prósent en með afléttingum hafta og auknum ferðavilja hefur starfsemin glæðst á ný. „Margir eru að koma aftur til okkar en svo er nokkur nýliðun líka,“ segir Grettir.