Land­spítalinn mun skoða mögu­leikann á því að hefja reglu­legar skimanir á starfs­fólki spítalans sem starfar á deildum sem sjá um þá hópa sem eru í á­hættu­hópi fyrir Co­vid-19. Már Kristjáns­­son, yfir­­­læknir smit­­sjúk­­dóma­­deildar og for­­maður far­­sóttar­­nefndar Land­­spítala, segir skimanir á hópum inn á spítalanum þó vara­samar og geta veitt falskt öryggi því veiran greinist oft ekki fyrr en nokkra daga eftir smit.

Ís­lensk erfða­greining hefur skimað starfs­fólk sitt reglu­lega undan­farið og sagði Már á upp­lýsinga­fundi Land­spítalans í dag að ekki væri úti­lokað að ein­hver slík reglu­leg skimun fyrir starfs­fólk á­kveðinna deilda spítalans færi fram: „Það hafa ekki verið skipu­lagðar skimanir á starfs­fólki hingað til. Það getur vel verið að við þurfum að endur­skoða þau á­form okkar.“

Hann segir ó­víst hvort farið verði í víð­tæka og handa­hófs­kennda skimun á sjúk­lingum spítalans eftir að hóp­smit kom upp innan hans en Ís­lensk erfða­greining hefur gjarnan boðið vinnu­stöðum og stofnunum upp á slíkt þegar smit koma upp. Slík skimun var til dæmis í boði fyrir nema Há­skóla Ís­lands í upp­hafi þriðju bylgju þegar smit greindist innan veggja skólans.

Varhugaverð vörn

Már segir að það starfs­fólk og þeir sjúk­lingar sem óttast er að hafi orðið út­settir fyrir smiti með ein­hverjum hætti verði skimaðir en ó­víst sé með aðra. Í dag eru 77 smit rakin til hóp­sýkingarinnar innan Landa­kots­spítala, 49 meðal sjúk­linga en 29 meðal starfs­manna Landa­kots, Reykja­lundar og á hjúkrunar­heimilinu Sól­völlum á Eyrar­bakka. Þá eru 250 starfs­menn spítalans í sótt­kví og 25 sjúk­lingar.

„Varðandi skimun sjúk­linga og starfs­manna, þá er það alltaf gert að gefnu til­efni ef það er um út­setningar­at­burð að ræða, þá gerum við það,“ sagði Már á fundinum. Hann taldi skimanir geta veitt falskt öryggi: „Það er erfitt að vega þetta og meta. Fólk getur verið með nei­kvæð próf, þó að það hafi hafi verið út­sett og sé svo smitandi næsta dag. Þetta er var­huga­verð vörn í rauninni en við verðum að endur­skoða kannski af­stöðu okkar til þess í ljósi þessara at­burða.“

„Mig langar að segja það líka hér að­eins að við höfum verið að bregðast mjög hratt við og við höfum verið að færa fólk til og með­höndla það þannig með veiru­lyfjum, í raun til að draga úr smiti,“ sagði hann loks.